150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og ég veit að hann er með góðan hug og sannarlega mun ég greiða þessu atkvæði og stend með því. En svo er spurningin, þó að við séum að koma með alls konar refsingar og hvaðeina, dagsektir eins og nú eru gildandi og slíkt, að ekki er farið eftir því, það er akkúrat ekkert farið eftir því. Hvaða tryggingu höfum við fyrir að einhver breyting verði á þessu? Það er ekki farið eftir neinu og ekki er gripið inn í. Foreldri sem beitir tálmun hefur komist upp með að segja: Af því bara. Og heldur áfram tálmunum, borgar aldrei krónu í dagsektir, aldrei nokkurn tímann. Ég er því ekki alveg viss. Jú, þetta er gott fyrsta skref, sannarlega. En ég er ekki eins bjartsýn á að þetta muni draga úr tálmunum um kannski 91% eða hvað það nú er. Mikið vildi ég að svo væri. En þetta er gert af góðum hug og sannarlega gott fyrsta skref. En hvar væri tryggingin virkilega fyrir því að löggjöfinni væri fylgt eftir og viðkomandi væri látinn sæta alvöruábyrgð? Hann á að sæta ábyrgð. Að beita barn ofbeldi er brot gegn barninu, algjört brot gegn barninu og viðkomandi á að sæta ábyrgð. Eins og hv. þingmaður segir, það á aldrei að bitna á barninu ef fólk er komið í einhverjar hatrammar deilur sín á milli, bara aldrei.