150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þetta allt saman. Ég hef sömu áhyggjur og hv. þm. Inga Sæland, það er ekki sjálfgefið að hlutirnir batni endilega við svona breytingu ef stjórnvöld sinna ekki hlutverki sínu. Um leið og fólk skynjar að það kemst upp með ofbeldið engu að síður þá er þetta auðvitað gagnslaust. Mér finnst samt líklegt að svona skilaboð hafi áhrif. Ég hafði þetta þannig að vísu, til að slá á efasemdir hjá fólki, að reyna að gera þetta gegnum Barnavernd, þannig að menn séu kannski ekki með tilefnislausar kærur til lögreglu í öllum þessum deilum. Það þýðir auðvitað að Barnavernd hefur hér miklar skyldur og mikla ábyrgð á að þessi mál leysist og klárist. Maður hefur haft áhyggjur af framkvæmdinni eins og hún hefur verið, þ.e. beiting dagsekta, sem hefur gengið afleitlega, fólk greiðir ekki og hitt foreldrið vill kannski ekki fara í einhvers konar fjárnám eða innheimtu vegna þess að ekki vill það að barnið sitt fari á götuna. Það eru mörg vandamál í þessu. Ég held að um leið og við höfum þessi úrræði, þ.e. ef forsjárforeldri eða lögheimilisforeldri brýtur gegn barninu með tálmun eigi það á hættu að missa þá stöðu sína, að bara það hafi heilmikil áhrif á foreldra og þeir hugsi sig tvisvar um áður en þeir fara í svona tálmunarferli eins og svo algengt er.