150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

náttúrustofur.

103. mál
[17:13]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þær eru átta, náttúrustofurnar á landsbyggðinni, og það fer enginn í launkofa með að þar fer fram bæði mikilvæg og gefandi vinna. Það er líka mikilvægt að halda til haga byggðasjónarmiðinu í kringum náttúrustofurnar vegna þess að þær laða að sér langskólagengið starfsfólk sem er mikil þörf á í svo mörgum byggðarlögum. Þarna fer líka fram rannsóknastarfsemi sem stuðlar að því sem við köllum jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar en það er grunnur efnahagslífsins eins og allir vita. Það má líka nefna loftslagsmálin því að sumar rannsóknir sem þarna fara fram gagnast þeim með beinum hætti.

Þessi þingsályktunartillaga ber með sér að það er þverpólitískur skilningur á mikilvægi hennar. Þarna eru tíu meðflutningsmenn úr mörgum flokkum og ber að fagna tillögunni og frumkvæði hv. þingkonu Líneikar Önnu Sævarsdóttur. Nú ríður á að fjölga verkefnum náttúrustofa, styrkja grunn þeirra og efla rannsóknir almennt í landinu. Að þessu miðar þingsályktunartillagan. Ég sé fyrir mér að þarna sé líka tækifæri til að þjónusta sveitarfélög í héraði með ýmiss konar upplýsingamiðlun og rannsóknum sem gagnast starfsemi þeirra. Til að gera langt mál stutt vona ég að starfshópurinn sem þingsályktunartillagan fjallar um taki brátt til starfa með því að málið fái fyrst farsælan endi hér á Alþingi.