150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

eignasöfnun og erfðafjárskattur.

[15:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við hæstv. forsætisráðherra deilum áhyggjum af auknum eignaójöfnuði, hann er þjóðhagslega óhagkvæmur og ógnar félagslegum og efnahagslegum stöðugleika. Ríkasta 1% landsmanna á nú þegar fimmtung af hreinni eign þjóðarinnar. Við sjáum hringrás þar sem þeir ríkustu, sem hafa efni á betri fjármálaráðgjöf, greiðari aðgang að fjármagni, ódýrara fjármagni, og geta auk þess fært fé fram og til baka á milli gjaldmiðla eftir því sem vindar blása, ná að ávaxta auð sinn langt umfram almenning. Himinháar upphæðir erfast á milli kynslóða. Auðurinn færist á sífellt færri hendur og bilið milli þeirra sem eiga mikið og hinna sem eiga lítið eykst stöðugt. Þannig er þetta koll af kolli. Margir fræðimenn vara við þessu, m.a. hagfræðingurinn Thomas Piketty sem við hæstv. forsætisráðherra höfum bæði verið hrifin af. Hann hefur fjallað mikið um erfðafjárskatt og hvernig nota megi hann til að stemma stigu við þessu.

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að erfðafjárskattur verði þrepaskiptur þannig að hann nemi 5% af fjárhæð allt að 75 millj. kr. en 10% af því sem er umfram þá upphæð. Nú er skatturinn 10%, óháð fjárhæð. Samneyslan verður við þessa breytingu af 2 milljörðum kr. Miðgildi fjárhæðar arfs á Íslandi er um 3,5 millj. kr. Lægra erfðafjárþrepið, sem ríkisstjórnin boðar nú, miðast aftur á móti við 75 millj. kr. Það er ágætishugmynd að hafa þrepaskiptingu á erfðafjárskatti en útfærslan skiptir að sjálfsögðu öllu máli í því sambandi. Ég spyr því hvort hæstv. ráðherra finnist ekki vel í lagt, svo að ekki sé meira sagt, að hafa þrepamörkin í 75 millj. kr. og hvort hún hafi ekki raunverulegar áhyggjur af því að þessar breytingar muni enn auka á eignaójöfnuðinn í landinu.