150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

kjör öryrkja.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í umræðum um stefnuræðu fyrrverandi forsætisráðherra í september 2017 sagði núverandi forsætisráðherra að ekki ætti að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Hún sagði ríkisstjórnina gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur haft tvö ár til að standa við orð sín. Fólk í fátækt bíður enn. Þó að forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk um að bíða eftir réttlætinu bíður það enn. Í dag er örorkulífeyrir 70.000 kr. lægri en lágmarkslaun. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi er engar breytingar að sjá og því mun bilið aukast upp í 86.000 kr. á mánuði á næsta ári. Ég spurði hæstv. félags- og barnamálaráðherra: Hvernig reiknar ríkisstjórnin þetta út? Er það með excel-skjali? Hvernig fara þeir að því að finna út forsendur fyrir því að fólk lifi á 70.000–86.000 kr. lægri launum á mánuði?

Með leyfi forseta var í fréttum RÚV í hádeginu í dag talað um annan hóp sem er orðinn skelfingu lostinn: „Doktorsnemar á barmi taugaáfalls vegna álags“, segir í fréttinni, „með tæpar 320.000 kr. á mánuði“. „Þetta er gífurlegt álag. Maður heyrir af fólki sem er á barmi taugaáfalls.“ Það hefur einnig áhyggjur af því „að það eigi ekki fyrir reikningum, eigi ekki fyrir mat og fari ekki til læknis“. Þarna er um einstaklinga að ræða sem eru með 70.000 kr. meira en það fólk sem lifir ekki í fátækt heldur sárafátækt.

Ég spyr forsætisráðherra: Hvernig í ósköpunum er farið að því að reikna út að þessi hópur sé þannig staddur að hann geti og eigi að lifa á 70.000–80.000 kr. minna á mánuði en lægstu laun í landinu eru?