150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

staða opinberra framkvæmda.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski fyrst um efni málsins að það er frumskylda stjórnvalda hverju sinni að sinna þeim verkefnum sem fjallað er um í þingsályktuninni, þ.e. að tryggja að vel sé farið með fé, opinbert fé, að unnið sé að því að auka skilvirkni opinberrar þjónustu; að ekki sé litið á slíkt mál sem eitthvert átaksverkefni sem við ákveðum sérstaklega að fara í og sinnum tímabundið heldur hef ég alltaf litið þannig á að það sem fjallað er um í þingsályktuninni sé meðal frumskyldna í öllum ráðuneytum, í öllu Stjórnarráðinu, í öllum stofnunum. Þannig get ég greint þingmanninum frá því að við höfum verið að vinna að mörgum málum sem eru eðlisskyld því sem fjallað er um í ályktuninni. En það er hins vegar ekki enn komið að því að skipa sérstakan starfshóp enda álitamálið kannski það hvernig við ættum að láta slíkan starfshóp starfa samhliða stjórnsýslu sem vinnur einmitt að verkefnum af þessum toga. Það er kannski eitthvað sem við þurfum að ræða á vettvangi ríkisstjórnarinnar, hvernig við ættum að útfæra það.