150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.

182. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þetta ágæta andsvar og fagna því að hún telji þessa tillögu athygli verða. Ástæðan fyrir því að við leggjum ekki til ákveðnar leiðir er sú að við viljum veita ráðherra tækifæri til að vinna aðeins með það. Ég sé t.d. fyrir mér að styrkja enn frekar Norðurslóðanetið í sessi og efla það þannig að það verði þá stærri og sterkari vettvangur norðurslóðasamstarfs á Íslandi. Þau eru að gera rosalega góða hluti nú þegar en ég held að hægt sé að gera enn meira með því að efla það starf. Mér líst ofboðslega vel á þá hugmynd hv. þingmanns að draga inn í þetta — ég sá það svo sem alltaf fyrir mér — fleiri stofnanir á Akureyri, og svo sem um allt landið. En þó að við séum að tala um að Akureyrarbær verði miðstöð norðurslóða erum við samt ekki að segja að það eigi að vera eini staðurinn þar sem er unnið að norðurslóðastarfi heldur að horfa einmitt til annarra stofnana og ekki síst þeirra sem eru staðsettar á Akureyri, eins og Jafnréttisstofu.

Hvað varðar önnur ráðuneyti treysti ég núverandi hæstv. utanríkisráðherra til þess að kalla þá að vinnunni sem hann telur þurfa. Hann hefur einmitt ítrekað lýst því yfir, bæði hér í þingsal og í ræðum annars staðar, að hann líti á Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. En ástæða þess að ég taldi rétt að leggja fram þessa tillögu, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðherra, er sú að hann verður líklega ekki alltaf utanríkisráðherra. Þar af leiðandi er eðlilegt og mikilvægt að þetta verði formfest með þessum hætti.