Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.

182. mál
[16:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir svarið. Ég velti áfram fyrir mér hvernig svona formleg staða myndi styrkja forystuhlutverk Akureyrar í sessi. Hvað gæti það eflt forystuhlutverkið mikið, er eitthvað sem þingmaðurinn sér fyrir sér? Hvernig gæti formleg staða haft áhrif á stöðu Háskólans á Akureyri og hlutverk hans í rannsóknum á norðurslóðum eða á málefnum norðurslóða?

Síðan langar mig að spyrja: Telur þingmaðurinn að þetta hlutverk, sem mér heyrist að við séum sammála um, sé almennt viðurkennt í samfélaginu? Fram kom að það væri viðurkennt af utanríkisráðuneytinu, alla vega eins og það starfar núna, og það hefur komið mér þannig fyrir sjónir að víðast hvar sé þetta hlutverk og forysta ýmissa stofnana á Akureyri á þessu sviði viðurkennt. En vantar eitthvað upp á það? Hefur þingmaðurinn orðið vör við það?

Þá langar mig bara að nýta hér fimm sekúndur í að undirstrika að mjög mikilvægt er að Ísland sé virkt í þessu samstarfi og sinni þar forystu og einhverjum sé falið að leiða það starf.