150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

40 stunda vinnuvika.

138. mál
[17:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir frumvarpið og ræðu hans. Ég ákvað að þeysa upp í ræðustól til að tjá mig um þetta og ég get sagt að ég hef ekkert á móti því að 1. desember sé almennur frídagur. Finnst reyndar frídagar almennt alveg ágætishugmynd þegar við fögnum stórum viðburðum. Við höfum bara gott af þeim, bæði til að minnast sögunnar og ekki síður er mikilvægt fyrir fjölskyldur landsins að hafa frídaga þar sem hægt er að koma saman og bregða út af hversdagsleikanum. En ástæðan fyrir því að ég kem upp er sú að ég er á móti lögunum sem lagafrumvarpið snýr að, þ.e. að við skulum í dag, árið 2019, vera með eitthvað sem heitir lög um 40 stunda vinnuviku á sama tíma og við ræðum stöðugt um að stytta vinnuvikuna og sveigjanleiki er orðinn mun meiri. Ef þessi lög eru lesin eru þau eiginlega bara hvorki fugl né fiskur. Með leyfi forseta, ef ég gríp aðeins niður í 2. gr.:

„Í hverri viku skulu ekki vera fleiri en 40 dagvinnutímar, sem vinna ber á því dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar, sem aðilar koma sér saman um. Heimilt er að semja um skemmri vinnuviku.

Að jafnaði skulu unnar 8 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið af aðilum.“

Eins er í 1. gr. farið yfir að þessi lög taki til allra launþega nema — og svo koma margar undantekningar, nema, nema, nema og nema samið sé um annað einhvers staðar annars staðar. Ég hef sagt þetta áður í ræðum. Ég held ég hafi tvisvar sinnum komið upp í umfjöllun um lagafrumvörp er lúta að breytingum á þessum lögum og þarf nú kannski bara, virðulegur forseti, að fara að hrinda því í framkvæmd sem ég hef lagt til og koma með frumvarp um að við fellum þessi lög úr gildi. Ég held að flest ef ekki allt sem þarna er ætti að vera í lögum um öryggi á vinnustöðum. Ég hygg að frumvarpið fari í velferðarnefnd þar sem fjallað er um vinnumarkaðsmál. Mér finnst miklu eðlilegra hvað það varðar að við séum með viðmið um að það skuli greiða yfirvinnu ef farið er yfir ákveðinn fjölda klukkustunda. En mér þykir bara gamaldags að vera í dag, í þeirri umræðu sem á sér stað um þróun starfa, með einhver lög sem heita lög um 40 stunda vinnuviku.

Það að 1. desember skuli vera frídagur finnst mér ágætishugmynd. Það er spurning hvort það sé ekki hægt að taka á lögbundnum frídögum í öðrum lögum. Ég hef ekkert á móti í greinargerðinni og markmiðinu á bak við frumvarpið og hef ekkert út á það að setja. En ég vil hvetja hv. velferðarnefnd til að velta því fyrir sér hvort þessi lagabálkur sé raunverulega þarfur þegar kemur að því að fjalla um þetta frumvarp.