150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

meðferð einkamála.

159. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála er varðar rökstuðning við málskostnaðarákvarðanir. Við fyrstu skoðun kann að virðast sem um lítið mál sé að ræða en það varðar þó mjög stóra hagsmuni.

Á hverju ári falla dómar í þúsundum dómsmála og málskostnaður í einföldu einkamáli fyrir héraðsdómi er sjaldnast undir einni milljón og oftast mun hærri. Málskostnaðarákvarðanir varða því mjög stóra hagsmuni, sérstaklega þegar um er að ræða einstaklinga eða lítil fyrirtæki. Málskostnaður samanstendur af þóknun lögmanns, kostnaði af birtingu stefnu, dómsmálagjöldum í ríkissjóð, ferðakostnaði, þóknunum til matsmanna, vitna, þýðenda og votta og kostnaður er af endurritun og svo getur annar kostnaður fallið undir málskostnað.

Almenna reglu um málskostnað má finna í 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga en þar segir, með leyfi forseta:

„Sá sem tapar máli í öllu verulegu skal að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað.“

Svo eru ákveðnar undantekningar á þessari reglu sem finna má í 2. og 4. mgr. sömu greinar, þ.e. 130. gr., og 131. gr. Þar er að finna sérreglu sem heimilar dómara að láta annan aðila greiða hluta málskostnaðar gagnaðila eða fella niður svo að báðir aðilar beri sinn eigin kostnað í máli. Fyrri málsliður kveður á um heimild til niðurfellingar að fullu eða að hluta þegar aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef veruleg vafaatriði eru uppi í málinu. Seinni málsliður gefur heimild til að fella niður ef þeim sem tapar hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum. Hins vegar er mjög óalgengt að ákvarðanir um að fella niður málskostnað með þessum hætti séu rökstuddar. En málaflokkarnir þar sem er algengt að málskostnaður sé felldur niður án þess að það verði sérstaklega byggt á 3. mgr. 130. gr. eru t.d. tryggingamál, þar sem einstaklingar eru að reyna að fá viðurkennda bótaskyldu tryggingafyrirtækja, málshöfðanir gegn stjórnvöldum og meiðyrði. Í þeim málum er ákveðinn aðstöðumunur á milli aðila, sérstaklega í tryggingamálum þar sem einstaklingar eru að reyna að fá viðurkennda bótaskyldu tryggingafyrirtækja. Þar eru ákveðin sanngirnissjónarmið á grundvelli aðstöðumunar þar sem einstaklingar ættu ekki að vera látnir bera ábyrgð á málskostnaði stórfyrirtækja. Hvað varðar málshöfðanir gegn stjórnvöldum má einnig finna sanngirnissjónarmið á grundvelli aðstöðumunar. Hvað varðar meiðyrði virðist venjan vera sú að dómstólar hafi tilhneigingu til þess að fella niður málskostnað þegar þeim finnst ummælin kannski hafa verið einhvern veginn móðgandi þótt þau séu varin tjáningarfrelsinu. Fjölmiðlar eru sérstaklega veikir fyrir svona málsóknum og þurfa sumir að vera með standandi sjóð til að standa straum af tilhæfulausum málsóknum, þar sem algengt er að málskostnaður er felldur niður.

Rannsókn mín sem gerð var á meiðyrðamálum í Hæstarétti árið 2000–2014 og í héraðsdómi frá 2006–2014 sýndi að fjöldi meiðyrðamála með niðurfelldan málskostnað er allt að helmingur. Það er greinilega mikil tilhneiging hjá dómstólum að fella niður málskostnað en það er eiginlega aldrei rökstutt. Þegar það er rökstutt er rökstuðningurinn heldur rýr. Með þessu frumvarpi erum við einfaldlega að kalla eftir því að dómstólar rökstyðji ákvarðanir sínar þegar um svona ákvarðanir er að ræða. Meginreglan er sú að vinni einstaklingur dómsmál eigi hann ekki að þurfa að greiða málskostnað. Við erum því að leggja til að vilji dómstóll víkja frá þeirri meginreglu þurfi hann að rökstyðja þá ákvörðun, enda eigum við öll rétt á rökstuðningi fyrir málsákvörðunum.

Það er líka mjög algengt að málskostnaður í dómsmálum sé langtum hærri en sjálfar dómkröfurnar. Þess vegna skýtur skökku við að næstum engu púðri sé eytt í að rökstyðja málskostnaðarákvarðanir, hvað þá þegar vikið er út frá meginreglunni án þess að fyrir frávikinu sé endilega skýr lagastoð, sem einnig er algengt.

Í greinargerð með frumvarpinu, sem hefur verið flutt áður, kemur eftirfarandi fram í kaflanum um rökstuðning dómara við málskostnaðarákvarðanir:

Í 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála eru talin upp atriði sem skulu koma fram í forsendum dóms þegar leyst er úr efnishlið máls með dómi. Samkvæmt f-lið greinarinnar skal greina rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði. Í h-lið sömu greinar segir að í forsendum skuli greina málskostnað, en þó er ekki sérstaklega tilgreint að niðurstaða um málskostnað skuli vera rökstudd. Algengt er að ákvarðanir dómara um málskostnað séu annaðhvort lítið eða ekkert rökstuddar, jafnvel þó að um umtalsverð fjárhagsleg réttindi málsaðila geti verið að ræða. Þannig getur niðurfelldur málskostnaður þess aðila sem vann málið hlaupið á milljónum króna. Vegna þess hve stuttur rökstuðningur við málskostnaðarákvarðanir er alla jafna verður að líta svo á að þau rök sem liggja að baki málskostnaðarákvörðunum komi ekki fram.

Síðan er vikið sérstaklega að málskostnaðarákvörðunum í meiðyrðamálum. Þegar dómstólar kveða upp dóma eru ákvarðanir um málskostnað ekki síður mikilvægar en þær sem snúa að efnislegri hlið málsins. Málskostnaður í dómsmálum getur oft numið hærri fjárhæð en þeir fjárhagslegu hagsmunir sem stefnt er vegna og má sjá mörg dæmi þess í meiðyrðamálum.

Mikilvægt er að haldbær rök liggi til grundvallar þegar vikið er frá meginreglu 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga um að sá sem tapi máli að öllu verulegu leyti skuli að jafnaði greiða málskostnað. Greinin kveður á um skýra skyldu til að greiða mótaðila málskostnað í vissum tilfellum. Þegar um er að ræða meiðyrðamál eða mál sem ætlað er að takmarka eða stöðva tjáningu einstaklinga eða lögaðila eru ekki aðeins fjárhagslegir hagsmunir undir heldur einnig atriði er varða réttinn til frjálsrar tjáningar. Málskostnaðarákvarðanir í slíkum málum eru þannig ekki síður mikilvægar en ómerkingar ummæla eða ákvarðanir um skaðabætur og refsingu. Dæmdar fjárkröfur í málum er varða ærumeiðingar samkvæmt 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga eru oft lágar og geta verið mun lægri en dæmdur málskostnaður. Hinn raunverulegi þungi af rekstri meiðyrðamála ræðst því oft frekar af því hvernig málskostnaður er dæmdur en beinlínis af niðurstöðu máls.

Ég fór yfir það að af skoðun héraðsdóma frá árabilinu 2006–2014 og dóma Hæstaréttar árin 2000–2014 í meiðyrðamálum má sjá að rökstuðningur er heldur rýr eða bara ekki til staðar í um helmingi mála.

Hvað varðar stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu má þess geta að rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar er varinn í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var á Íslandi með lögum um mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur um áratugaskeið mótað dómaframkvæmd um 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Meðal annars hefur hann skýrt greinina svo að í henni felist rétturinn til að fá rökstudda niðurstöðu dómstóla. Það að gefa ekki nægilegan aðgang að forsendum dóma getur falið í sér brot gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans.

Sú staðreynd að algengara skuli vera að málskostnaður sé felldur niður í meiðyrðamálum getur einnig haft áhrif á tjáningarfrelsið, sem verndað er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fjölmiðlar hafa atvinnu sína af því að fjalla um opinbera og valdamikla aðila og kann umfjöllun þeirra í mörgum tilvikum að vera umdeild. Því verða fjölmiðlar oftar fyrir því að þeim er stefnt fyrir meiðyrði. Dómvenja sem snýr að því að fella málskostnað niður í þeim málaflokki kann að skapa mikinn kostnað fyrir þá aðila sem oft fjalla um umdeild mál. Slík dómvenja getur stuðlað að kælingaráhrifum gagnvart tjáningarfrelsinu, en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað varað við því að framkvæmd sem kunni að stuðla að slíkum áhrifum, sérstaklega þegar blaðamenn eiga í hlut, kunni að brjóta gegn 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Það að réttarfar og málsmeðferð séu opinber er meginregla í einkamálaréttarfari. Að gera þann hluta dóma sem snýr að málskostnaði gagnsærri og ítarlegri er til stuðnings þeirri meginreglu. Það er einnig mat flutningsmanna að slíkt sé í samræmi við ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar og við ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar, en það að forsendur og rökstuðningur dóma skuli vera aðgengileg er nauðsynlegur hluti af þeirri réttindavernd sem 1. mgr. 6. gr. sáttmálans veitir. Ætlunin með frumvarpi þessu er m.a. að fá fram í dagsljósið rökstuðning sem liggur að baki þeirri venju að fella niður málskostnað í meiðyrðamálum og í öðrum málum sem ég taldi upp hér áður, virðulegi forseti, og tryggja þannig að ekki festist í sessi dómvenja sem getur haft neikvæð áhrif á tjáningarfrelsið eða önnur réttindi einstaklinga, enda munu þá ákvarðanir um málskostnað sæta mun ítarlegri gagnrýni en áður og mögulegrar endurskoðunar á æðri dómstigum.

Með frumvarpi þessu er sú breyting lögð til að þegar dómari víkur frá meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála skuli sú ákvörðun sérstaklega rökstudd. Með samþykkt frumvarpsins má stuðla að auknu réttaröryggi, auknu gagnsæi og því að auðveldara verði að greina ríkjandi réttarvenjur.

Flutningsmenn frumvarpsins eru auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy.

Ég legg einnig til, virðulegi forseti, að frumvarpið fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til meðferðar.