150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

meðferð einkamála.

159. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Hún er góð og gild. Svo ég skýri aðeins forsögu málsins snýr hún sérstaklega að tjáningarfrelsi og er í samhengi við annað mál er varðar áfrýjunarrétt þegar kemur að meiðyrðamálum. Málið var búið til í því samhengi að reyna að jafna þann aðstöðumun sem er á milli sóknaraðila og varnaraðila í meiðyrðamálum, sérstaklega er snúa að fjölmiðlum. Þetta var sett upp til þess að leysa ákveðið vandamál sem er til staðar. Það er verið að stefna fjölmiðlum fyrir ummæli sem kannski stenst ekki einu sinni skoðun að eigi að stefna fyrir. En þeir myndu tapa gríðarlegum fjármunum á því að þurfa að verja mál fyrir dómi vegna þess að þeir eru dæmdir til að greiða málskostnað þrátt fyrir að hafa kannski unnið málið fyrir dómi. Málið verður til í því samhengi en það nær þó yfir töluvert fleiri atvik en einungis meiðyrðamálin, eins og ég kom inn á í flutningsræðu minni, vegna þess að hvað almennu regluna varðar, sem finna má í 1. mgr. 130. gr., finnst mér ekki endilega þurfa að rökstyðja hvort henni eigi að fylgja. Ef almenna reglan er sú að sá sem tapar eigi að greiða málskostnað finnst mér ekkert sérstaklega þurfa að rökstyðja það, þ.e. að meginreglunni sé fylgt. Hins vegar er frávik við meginregluna að finna í þessum tveimur ákvæðum og þar af leiðandi tökum við þau sérstaklega fram, 2. og 4. mgr., að það skuli sérstaklega rökstutt. Hins vegar finnst mér fullt tilefni til að skoða hvort það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að það mætti halda betur utan um þessi mál. Ég legg því til að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði sérstaklega hvort ekki sé hægt að grípa utan um öll þessi mál við meðferð frumvarpsins.