150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

25. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Þá er komið á dagskrá fimmta forgangsmál Flokks fólksins á þessu haustþingi. Áður höfum við mælt fyrir forgangsmálum svo sem um lágmarksframfærslu upp á 350.000 kr., skatta- og skerðingarlaust, sem er á pari við ríflega hálfrar milljón króna tekjur miðað við stöðuna í dag. Þá erum við að tala um laun. Svo erum við að tala um lágmarksframfærslu upp á 300.000 kr., skatta- og skerðingarlaust, í almannatryggingakerfinu. Öll okkar mál miða að því að reyna að hífa upp þá sem höllustum fæti standa og eiga varla fyrir salti í grautinn og reyna að hækka framfærslugetu þeirra. Allt sem við höfum verið að gera, eins og í þessu tilviki, kostar mikla peninga, t.d. það að hækka lágmarkslaunin í 350.000 kr., skatta- og skerðingarlaust. Þetta eru hvorki meira né minna en 38 milljarðar kr. á ársgrundvelli þannig að þessi forgangsmál kosta peninga, það er alveg ljóst.

Þess vegna er ég nú að mæla fyrir þessari tillögu til þingsályktunar, til þess að sýna fram á hvernig við getum með ákveðnum leiðréttingum og breytingum bætt okkar ágæta kerfi, sem mér finnst nú kannski ekkert alltaf svo ágætt og við setjum það oft innan gæsalappa því að Flokki fólksins þykir í raun og veru forgangsröðun fjármuna gjarnan alröng og ekki endilega stuðla að því að setja fólkið í fyrsta sæti.

Með mér á þessari þingsályktunartillögu er Guðmundur Ingi Kristinsson. Þingsályktunartillagan fjallar um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Hún felur í sér að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir lok árs 2020 þess efnis að staðgreiðsla skatta fari fram við innborgun í lífeyrissjóði en ekki við útgreiðslu lífeyrissparnaðar eins og nú er. Við skulum átta okkur á því að þegar lífeyrissjóðakerfið var sett á laggirnar á sínum tíma, 1969 minnir mig, var akkúrat sá háttur hafður á. Það var tekin staðgreiðsla við innborgun. Við viljum að tryggt verði að þeim fjármunum sem breytingin skili ríkissjóði verði varið í þágu aukinnar velferðar. Allt sem við erum að gera er að reyna að breyta umgjörðinni og forgangsraða fyrir fólkið fyrst. Það er meginmarkmið og stefna Flokks fólksins. Ég vil leyfa mér að efast um það, virðulegur forseti, að nokkur hafi misst af því.

Ég ætla að lesa upp úr greinargerð, með leyfi forseta:

Á síðustu árum hafa eignir lífeyrissjóðanna stóraukist og eru nú tæplega 5.000 milljarðar kr. samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands. Inngreiðslur í samtryggingarsjóði nema yfir 200 milljörðum kr. á ári. Árið 2000 námu eignir lífeyrissjóðanna um 80% af vergri landsframleiðslu en árið 2017 var hlutfallið komið í 157% samkvæmt hagtölum lífeyrissjóða sem birtast á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, lífeyrismál.is. Það er áhyggjuefni hve mikil umsvif lífeyrissjóðanna eru í íslensku viðskiptalífi. Stjórnir þeirra eru skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga og atvinnulífsins sem síðan skipa stjórnarmenn til að sitja fyrir hönd sjóðanna í stjórnum fyrirtækja sem sjóðirnir eiga sjálfir hlut í. Þannig eru tengslin á milli eigenda fjármagnsins (sjóðfélaga sjálfra) og þeirra sem annast fjárreiður lífeyrissjóða lítil sem engin. Útkoman er sú að stór hluti íslenskra fyrirtækja er í eigu óvirkra aðila sem starfa samkvæmt lögbundinni ávöxtunarkröfu en ekki vilja sjóðfélaga. Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðirnir sætt gagnrýni fyrir að fjárfesta í áhættusömum fyrirtækjum, greiða stjórnarmönnum ofurlaun og styðja viðskipti sem sjóðfélögum blöskrar. Með því að greiða skatta af iðgjöldum við innlögn í lífeyrissjóði má sporna gegn því að lífeyrissjóðirnir verði óeðlilega stórir miðað við stærð hagkerfisins.

„Fjármuni skortir til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur á íslenska velferðarkerfinu. Heilbrigðiskerfið stendur á brauðfótum, bætur almannatrygginga duga ekki til framfærslu og bilið milli hinna ríku og fátæku eykst ár frá ári. Því er nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs og nýta þær í þágu fólksins. Eins og Flokkur fólksins segir: Fólkið fyrst. Skattlagning við innlögn í lífeyrissjóð í stað útgreiðslu er sársaukalaus leið til að stórauka tekjur ríkissjóðs og gerir honum kleift að styrkja velferðarkerfið án þess að skerða ráðstöfunartekjur almennings.

Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi eru iðgjöld í lífeyrissjóði og mótframlög vinnuveitenda ekki skattlögð. Þess í stað eru greiðslur úr lífeyrissjóðum til lífeyrisþega skattlagðar. Þannig er skattlagningu þeirra fjármuna sem mynda stofn lífeyrissparnaðar frestað þar til kemur að útgreiðslu þeirra. Ávöxtun lífeyris er ekki áhættulaus og hefur borið við að lífeyrissjóðir skili verulegu tapi.“

Ég er svo sem ekkert að segja nein tíðindi hér. Þetta þekkja allir. Það hefur jafnvel komið upp sú staða að á einni nóttu hafa áunnin réttindi lífeyrisgreiðanda hreinlega verið þurrkuð út um kannski 30% á einni nóttu. Ég man sérstaklega eftir Lífeyrissjóði sjómanna á sínum tíma sem heitir nú Gildi. Það var alveg með ólíkindum. Menn voru búnir að sjá hvað þeir voru búnir að safna og vinna sér inn réttindi en þar sem sjóðurinn gekk ekki nógu vel var heimild til þessa. Maður fékk bara bréf: Sjáðu til, ágæti lífeyrisgreiðandi, réttindi þín voru skert á einni nóttu um 30%. Ég hef ekki kafað ofan í það en mér finnst ekki góður bragur á þessu. Ég verð að segja það. Ég efast um að það standist lög að þegar maður er búinn að ávinna sér rétt og stendur í góðri trú um að það sé nákvæmlega það sem maður hafi, skuli hann bara vera skertur sisvona. En það er nú sama. Snúum okkur aftur að tillögunni.

Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að ríkissjóður sæki skatttekjurnar í upphafi og geti því ráðstafað þeim á eigin forsendum í stað þess að treysta lífeyrissjóðum til að ávaxta alla fjárhæðina. Eðli málsins samkvæmt lækkar það fjármagn sem streymir inn í lífeyrissjóðina um það sem nemur staðgreiðslunni sem er í upphafi. Á móti kemur að ekki greiðist skattur þegar sá sparnaður er leystur út og því hefur breytingin ekki í för með sér hlutfallslega rýrnun á ávöxtun lífeyrissjóða.

Miðað við greiðslur í lífeyrissjóði á árinu 2018 og 36% skatt myndi staðgreiðsla við innborgun skila ríkissjóði hvorki meira né minna en 72 milljörðum kr. árlega. Samþykkt þessarar tillögu myndi því veita þjóðinni einstakt tækifæri til úrbóta. Það er þörf á aukinni fjárfestingu í velferð og því er brýnt að ríkið nýti auknar tekjur vegna staðgreiðslu við innborgun í þágu þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda. Efla þarf rekstur heilbrigðiskerfisins og fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum. Átaks er þörf til að auðvelda atvinnuþátttöku öryrkja. Það mundi leiða til þess að fleiri kæmust aftur inn á vinnumarkað og skiluðu þá enn auknum skatttekjum. Ríkið þarf að draga úr skattbyrði láglaunafólks og lífeyrisþega og auka ráðstöfunartekjur þeirra. Það er nákvæmlega það sem Flokkur fólksins er að berjast fyrir. Það er nákvæmlega það sem öll okkar forgangsmál snúast um. Það myndi minnka líkurnar á að fólk þyrfti að fjármagna daglega neyslu sína með skuldsetningu og festast í hinni gamalgrónu og vel girtu fátæktargildru. Grundvallarforsenda þessarar tillögu er að allir þeir auknu fjármunir hins opinbera sem kunna af þingsályktunartillögunni að leiða, þ.e. ef þingheimur sér sömu tækifæri í því að hugsa um velferð borgaranna og Flokkur fólksins gerir, verði nýttir í þágu fólksins.

Virðulegi forseti. Ég er búin að tala við ansi marga eldri borgara. Sumir eru jafnvel óttaslegnir og segja: Hvað þýðir þetta? Erum við tvísköttuð? Hvernig er með ávöxtun mína á þessu fjármagni á meðan það er inni í lífeyrissjóðunum? Ég ávaxta þá minna. En eins og ég benti á áðan er það ekki svo vegna þess að maður greiðir í raun ekki staðgreiðslu við útborgun. Við innborgun nýtir maður sér 100% persónuafslátt og annað slíkt. Þetta vegur allt upp hvað á móti öðru. En staðreyndin er sú að ég veit ekki um einn einasta einstakling sem ég hef talað við, og eru þeir nú ansi margir, sem hefur ekki sagt að hann vildi frekar reyna að stíga út úr skerðingarkerfinu með því að greiða staðgreiðslu strax við innborgun í lífeyrissjóðina, enda kannski í miklu betri stöðu til að gera það þá heldur en á gamals aldri þegar við erum farin að taka út úr sjóðunum.

Við skulum tala um hvernig við töpuðum t.d. 600 milljörðum í hruninu, hvernig fjárfestingar við höfum verið að gera, alveg ótrúlegar áhættufjárfestingar. Við erum jafnvel að nota lífeyrissjóðina okkar í hótel. Við erum að nota þá í flugfélög. Við höfum verið að nota þá í tuskubúðir í London. WOW air. Ég gæti lengi talið upp, en staðreyndin er sú að það er ekki ástæða til að skella skollaeyrum við því þegar einstaklingarnir sjálfir, þeir sem eiga sjóðina, eru tilbúnir til þess að hafa það akkúrat þannig, að losna við staðgreiðsluna við útborgun en fá að nýta hana í samneysluna með það fyrir augum að við látum féð renna til fólksins og ráðumst á hinar endalausu, eilífu skerðingar, sem sumir hverjir vilja jafnvel flokka sem hreina eignaupptöku og brot á 72. gr. stjórnarskrár. Við erum lögþvinguð til að greiða í lífeyrissjóði og okkur er talin trú um að það sé til að byggja upp öryggi okkar á efri árum. En hvað þýðir það þá? Hvaða öryggi? Í raun skildu það allir þannig að þetta ætti að vera viðbót við kerfi sem þegar er til staðar, almannatryggingakerfið. Þegar talað er á þá lund að það eigi að láta þá sem eru milljarðamæringar eða eiga milljónir hingað og þangað nýta sér almannatryggingakerfið til fulls og fá allt út úr því er það bara ekki þannig. Staðreyndin er ekki sú. Þetta er alger villa í umræðunni vegna þess að það er algerlega fyrir það girt að þeir sem eru komnir með milljónir á mánuði eða rosamiklar tekjur geti farið að nýta sér almannatryggingakerfið. En þeir sem eiga kannski ekki nema 150.000 kr. í áunninn lífeyrisrétt, hvers vegna eru þeir skertir svona mikið í almannatryggingakerfinu og settir undir fátæktarmörk? Hvers vegna? Vegna þess að við búum við ósanngjarnt kerfi sem við verðum að breyta. Það er nákvæmlega það sem við erum að leggja til hér og nú.

Meðflutningsmaður minn á þingsályktunartillögunni er Guðmundur Ingi Kristinsson. Það sést alveg hver áhuginn er á að setja fólkið í fyrsta sæti og breyta pínulítið þeirri forgangsröðun á fjármunum sem ríkið tekur til sín leynt og ljóst og stundum, eins og í þessu tilviki, þegar við erum orðin gömul og vildum gjarnan sleppa því að borga skatta. Í þessu tilviki viljum við gjarnan að þetta verði gert þegar við erum ung og erum að greiða skattana. Staðgreiðslan fari í okkar sameiginlega sjóði. Við getum farið að ganga á þessar skerðingar. Við getum farið að koma lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust yfir fátæktarmörk. Er það ekki algjört lágmark? Er ekki algjört lágmark að a.m.k. þau viðmiðunarmörk sem koma frá sjálfu velferðarráðuneytinu um lágmarksframfærslu séu virt af okkur sjálfum, löggjafanum í landinu? Er ekki lágmark að við sýnum í verki að við viljum draga lágmarksframfærslu yfir þau mörk? Ég segi jú, ég get ekki séð neitt skynsamlegra í stöðunni. Það er ekki fyrir það að ég sé svona sjónlaus sem ég sé þetta þannig. Ég sé þetta bara verulega skýrt.

Að lokum vísa ég þingsályktunartillögunni til — er það ekki til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, virðulegi forseti?

(Forseti (BN): Smávandamál með þetta.)

Ég er í smávanda. Ég er alltaf villt þarna. Ég treysti forseta til að finna út úr því að þetta fari á réttan stað.