150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

117. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Herra forseti. Áður en þingfundur var settur í dag gerði ég mér ferð hingað inn þingsal til að sjá hvort hægt væri að nýta þennan dásamlega sal okkar til að sýna fram á auknar öfgar í veðurfari vegna hlýnunar loftslags. Ég mætti með tommustokkinn og komst að því að akkúrat þessar tvær bríkur hér geta nýst til þess. Þær eru 95 sentímetra frá gólfinu en það er akkúrat það magn úrkomu sem féll á þeim svæðum í Japan þar sem áhrif fellibyljarins voru hvað mest nú um helgina. 95 sentímetrar af úrkomu á einum sólarhring. Þegar við sitjum í sætum okkar, hv. þingmenn, getum við horft á þessa línu og hugsað: Hvernig ætli sé að sjá svona dembu koma á einum degi? Vegna þess að við erum ekki að tala um einhverjar skúradembur þegar loftslagsérfræðingar tala um aukna úrkomu í fellibyljum heldur stjarnfræðilegt magn úrkomu sem hefur gríðarleg áhrif. Tíðni þessara fellibylja er að aukast vegna hamfarahlýnunar og við þurfum að bregðast við.

Ég mæli fyrir frumvarpi sem er viðbrögð við þessu ástandi. Það kveður á um að ekki verði teknar til afgreiðslu umsóknir um rannsóknir eða vinnslu eða leit að olíu og gasi á íslensku yfirráðasvæði nema sigur hafi unnist í loftslagsmálum. Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna, herra forseti, að frumvarpið tekur á mjög afmörkuðum hluta loftslagsvandans en það er líka gríðarlega einfalt í framkvæmd. Samþykkt þess myndi sýna með afgerandi hætti að við hér á Íslandi værum reiðubúin til að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru í þessari baráttu.

Ég ætla ekki að orðlengja umræðuna með því að lesa upp alla greinargerðina en mæli með því að áhugasamir líti á hana. Þar er farið yfir sögu olíuleitar við Ísland. Það lagaumhverfi sem frumvarpið tekur á á rætur að rekja röska tvo áratugi aftur í tímann þegar Alþingi samþykkti árið 1997 þingsályktun um olíuleit við Ísland sem síðan ól af sér árið 2001 þau lög sem við fjöllum hér um sem fjalla um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Síðan leið og beið þar til árið 2011 að Orkustofnun auglýsti eftir umsóknum vegna útboðs á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu svokallaða, langt norður af landi. Í framhaldinu gaf stofnunin út þrjú sérleyfi til slíkra rannsókna árin 2013 og 2014 og þau fyrirtæki sinntu rannsóknum næstu árin en skiluðu leyfunum inn eftir að hafa ekki haft erindi sem erfiði á árabilinu 2015–2018. Það er sem sagt um þessar mundir engin starfsemi í gangi hér á landi sem þetta frumvarp myndi snerta. Því er þetta rétti tíminn til að setja tappann í.

Um ástæður þess að ráðist var í olíuleit við Íslandsstrendur skal ekki margt sagt en kannski er sérstaklega ástæða til að benda á hversu gríðarlega áhættusöm olíuleit á svæðinu norður af Íslandi er, t.d. vegna veðurfars þar um slóðir og fjarlægðar frá aðstoð ef eitthvað kemur upp á og hversu gríðarleg áhætta og kostnaður fyrir íslenska ríkið hlytist af öllum óhöppum sem yrðu við slíka starfsemi á þeim slóðum. Áföll í þessum bransa eru með þeim dýrari sem mannkynið þekkir, t.d. er áætlað að lekinn úr Deepwater Horizon borpallinum í Mexíkóflóa árið 2010 hafi kostað um 7.000 milljarða kr. Það jafngildir, ef ég man rétt, sjöföldum fjárlögum íslenska ríkisins. Ef slíkur kostnaður félli á hið opinbera væri það meira en að segja það.

Svo má ekki gleyma því að á undanförnum árum hefur andstaða við olíuvinnslu stóraukist um allan heim. Það mætti segja að öll ríki heims séu nú formlega séð sammála um að olíu- og gasframleiðsla sé á útleið og því myndi skjóta nokkuð skökku við að ætla að hefja framleiðslu á nýjum svæðum í því umhverfi. Á alþjóðasviðinu mætti líka nefna að Alþjóðabankinn hefur tilkynnt að hann veiti ekki lengur lán til leitar og vinnslu jarðefnaeldsneytis og rökstyður það með því að hann ætli með því að styðja við markmið Parísarsáttmálans, enda segja vísindin okkur einfaldlega að ef við ætlum að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins þurfi stærstur hluti þeirra kolefnisbirgða, þ.e. olíu og gass, sem vitað er um í jörðu að liggja þar óhreyfðar og óbrenndar. Annars horfi hér allt til hamfara.

Nokkur ríki hafa tekið jákvæð skref í þessa átt. Þau eru nefnd í greinargerðinni en ég ætla sérstaklega benda á Nýja-Sjáland sem hefur sennilega gengið einna lengst þeirra. Þar voru samþykkt lög sem tóku gildi fyrir réttu ári sem banna alla leit að olíu undir hafsbotni í kringum Nýja-Sjáland. Eins samþykkti franska þingið bann sem tekur ekki bara til framleiðslu innan Frakklands heldur á öllum frönskum yfirráðasvæðum, sem skiptir kannski meira máli í þessu samhengi. Svo mætti nefna önnur ríki.

Sú aðferð sem lögð er til í frumvarpstextanum er að umsóknir verði ekki teknar til afgreiðslu nema að uppsöfnun koldíoxíðs í andrúmsloftinu hafi mælst undir 350 ppm að meðaltali hvern undangenginna 12 mánaða. Þetta má nú útskýra aðeins, enda kannski það tæknilegasta í þessu frumvarpi. Mælingar á styrk koldíoxíðs eru samfelldar frá árinu 1958 þegar mælingar hófust á Havaí-eyjum og nú er svo komið að bandaríska haf- og veðurfræðistofnunin, NOAA, heldur utan um tæplega 100 mælistaði víðs vegar um heim, þar á meðal á Stórhöfða. Meðaltal þessara mælinga er það sem hér er átt við með meðaltali uppsafnaðs koldíoxíðs í andrúmslofti. Þetta er jafnframt sú tala sem miðað er við í t.d. loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Þetta telst vera nokkuð stöðluð mæling í þessum efnum. Talan 350 ppm er fengin frá einum af frumkvöðlum loftslagsvísindanna, James Hansen, sem lagði til fyrir 30 árum, árið 1988, við Bandaríkjaþing að 350 ppm yrðu þau viðmiðunarmörk sem þyrfti að komast undir til þess að endurheimta orkujafnvægi jarðar og skapa aftur loftslag sem telja megi eðlilegt. Til samanburðar er talið að þetta gildi hafi verið um 280 fyrir iðnbyltingu og síðustu fjögur, fimm árin hefur það ekki mælst undir 400. Þar sem við erum ekki með glærusýningu hérna í pontu, herra forseti, er mjög auðvelt að lýsa línuritinu sem hér er um að ræða. Það er svona. Það er stöðug hækkun á styrk koldíoxíðs í lofthjúpnum frá upphafi mælinga og ekkert lát þar á.

Þá er spurningin um nauðsyn og tilefni þessa frumvarps. Forseti gæti sem best spurt mig: Já, en Andrés minn, fyrst að við erum ekki að leita að olíu neins staðar í kringum Ísland og engar horfur á að það gerist, af hverju þurfum við að setja sérstaklega í lög að við ætlum ekki að gera það? Þá langar mig að nefna þrjá nágranna okkar hér við Norður-Atlantshafið sem gefa okkur alveg ástæðu til að setja í lög það sem okkur finnst í dag kannski sjálfsagt en gæti í fyrirsjáanlegri framtíð ekki þótt jafn sjálfsagt. Fyrst myndi ég vilja nefna Bandaríkin. Um liðna helgi var haldið Hringborð norðurslóða í Hörpu og þar mætti orkumálaráðherra Bandaríkjanna, Rick Perry, og viðhafði mjög óvenjulegan tón þegar hann fór að tala um þau tækifæri sem fælust í ónýttum gasauðlindum sem liggja undir norðurheimskautssvæðinu eins og hlaðborð auðlinda sem hægt væri að nýta til hagsbóta fyrir fólk á norðurslóðum. Þetta er náttúrlega ágætlega í takti við yfirlýsingu Bandaríkjaforseta frá vorinu 2017 þegar hann tilkynnti að Bandaríkin drægju sig út úr Parísarsáttmálanum. Samhliða þessu stóð orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna fyrir málstofu á Hringborði norðurslóðanna þar sem talað var um tæknilegar áskoranir við olíuleit á norðurslóðum. Ég myndi segja, herra forseti, að eina tæknilega áskorunin felist í því að fá fólk til að láta sér ekki detta þá vitleysu í hug að bora eftir olíu eða gasi á norðurslóðum.

Annar nágranni okkar sem rétt er að nefna er Noregur. Noregur er áhugavert ríki í þessu samhengi. Norska ríkisstjórnin hefur lengi haft mjög metnaðarfull áform um orkuskipti og leiðir til að ná árangri í loftslagsmálum heima fyrir en á sama tíma er Noregur einn stærsti framleiðandi olíu og gass í heiminum. Gott og vel, það er arfleifð frá gamalli tíð, en samt ekki. Bara núna í síðustu viku hófu Norðmenn starfsemi á Johan Sverdrup svæðinu í Norðurhafi sem mun auka olíuframleiðslu Norðmanna um þriðjung. Framleiðsla þar á að standa til ársins 2050 samkvæmt áætlunum Norðmanna. Þegar Johan Sverdrup svæðið verður komið í fulla framleiðslu mun það skila af sér 660.000 olíufötum á dag. Það segir okkur kannski ekki mikið sem höfum ekki tilfinningu fyrir því hvað olíufatið er stórt. En ég prófaði að umreikna þetta. Þetta jafngildir því, herra forseti, að Norðmenn framleiði svo mikla olíu að hún myndi fylla Alþingishúsið, þetta fallega hús okkar, á klukkutíma fresti til ársins 2050, á klukkutíma fresti hvern einasta dag. Þetta eru brjálæðislegar tölur. Að sama skapi er brjálæðislegt hversu mikil áform Norðmenn hafa um nýja olíu- og gasleit í Barentshafi sem er nú rækilega á norðurslóðum.

Svo langar mig að nefna nágranna okkar á Írlandi en ég sperrti nefnilega eyrun þegar ég heyrði yfirlýsingu forsætisráðherra, Írlands, Leo Varadkar, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í liðnum mánuði þar sem hann sagði að hann hefði að ráðleggingum loftslagsráðs síns lagt til að Írar hættu leit að olíu. Þetta kom mér dálítið á óvart vegna þess að þessi sami Leo Varadkar hefur staðið í vegi fyrir þingmáli sem sagt er frá hér í greinargerð, frumvarpi sem er nánast samhljóða því frumvarpi sem við ræðum hér. Ríkisstjórn Varadkars hefur beitt öllum þeim klækjabrögðum sem henni hafa dottið í hug til að halda málinu föstu í nefnd, til að þæfa það og tefja til að það komist ekki til afgreiðslu á þinginu vegna þess að ríkisstjórnin er hrædd um að þingið myndi einfaldlega samþykkja málið þar sem þykir nokkuð ljóst að það sé meiri hluti fyrir því. En hvers vegna var Leo Varadkar þá að tala svona úti í New York á allsherjarþinginu? Jú, hann bætti nefnilega við að Írar myndu halda áfram að leita að gasi og vinna gas sem hann kallar, með leyfi forseta, „transition fuel“. Hvað eigum við að kalla það? Eldsneyti til að koma okkur yfir í græna hagkerfið. Það vill svo til að það eru engar líkur eða því sem næst engar á því að það finnist olía á írska landgrunninu en þar finnst gas. Þannig að það sem forsætisráðherra Írlands gerði í New York var það sem ætti nú yfirleitt að forðast í stjórnmálum, það var nokkuð innantómt.

Þar sem við og ríki heims erum á þeirri sameiginlegu vegferð að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis þurfum við að beita ekki bara ýmsum ráðum heldur öllum ráðum til þess að takast á við það neyðarástand sem blasir við okkur í loftslagsmálum. Ein af þeim aðgerðum sem skipuleggjendur föstudagsverkfallanna hér á Austurvelli lögðu til að væri hluti af yfirlýsingu um neyðarástand í loftslagsmálum var að ekki yrði veitt frekari heimild til olíuleitar á íslensku yfirráðasvæði. Í þeim hópi er oft talað um að það þurfi aðgerðir strax. Hér er komið frumvarp sem býður upp á eina slíka aðgerð og strax-ið þarf ekki að vera neitt lengra en svo að við afgreiðum málið til hv. atvinnuveganefndar, hún greiði götu þess í gegnum nefndarstarfið og við samþykkjum það sem lög frá Alþingi. Þar með verðum við í færum með að verða ekki fyrst ríkja til að taka þetta skref en meðal þeirra fyrstu. Þetta væri ábyrg staða sem myndi gera okkur kleift að standa undir nafni sem framsækið ríki í loftslagsmálum og myndi líka gefa okkur sterkari stöðu þegar við töluðum við vini okkar, olíufíklana, hvort sem þeir eru frá Bandaríkjunum, Noregi, Írlandi eða hvaðan sem þeir eru og segjum: Að banna olíu og gas? Gerum það. Við gerðum það.