150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Guðrún Bachmann, Guðmundur Kamban, Borghildur Fanning, Jón Maron, Björn Blöndal. Þarna er hún Guðrún, amma mín, og bræður hennar og systir. Önnur systkin báru kenninöfnin Jónsdóttir eða Jónsson. Og hvaðan kom svo Bachmann-nafnið sem amma mín bar? Jú, það ku hafa verið Jón Hallgrímsson sem fór utan til náms til Þýskalands. En af því að Hallgrímssonar-nafnið var svo flókið þótti betra að kenna sig við Bakka. Þetta var um þarsíðustu aldamót. Þá mátti nefnilega velja hvað maður hét. Af hverju er ég að rifja þetta upp? Vegna þess að á dögunum fengum við fregnir af því að systurnar Ingibjörg Sædís og Eydís Rán sem búa á Íslandi árið 2019, ólust upp við mikla fátækt og vanrækslu og hafa ekki átt í neinum samskiptum við föður sinn í rúman áratug, vilji nú hætta að bera nafn hans, vilji hætta að kenna sig við föður sinn, og taka upp nýtt kenninafn. Er það ekki auðsótt mál, myndi maður ætla? Nei, hin alls ráðandi hönd ríkisvaldsins bannar þeim það. Ríkisvaldið bannar þeim að breyta um kenninafn af því að þær bera ekki ættarnafn langt aftur í ættir. Þær fá ekki að velja.

Við reyndum á síðasta þingi að breyta þeim óskapnaði sem mannanafnalög eru en meiri hluti á þingi, stjórnarflokkarnir, ríkisstjórnarþingmennirnir, komu í veg fyrir nauðsynlega breytingu. Þess vegna höfum við ákveðið að þær systur fái ekki að breyta um kenninafn. Þær skulu áfram bera nafnið Bergsteinsdóttir, sem veldur þeim vanlíðan, vegna þess að ríkisvaldið vill það. Ríkisvaldið hefur ákveðið að velja það að þær megi ekki heita Bergvík eða Brimberg eins og þær hafa sjálfar óskað eftir, heldur skulu þær áfram bera nafn sem þær óska ekki eftir að heita.