150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Örstutt um þetta sama bréf. Ég skildi það ekki á þann hátt sem hv. þm. Brynjar Níelsson kynnti hér áðan, langt í frá. En að einhverju skemmtilegra, aksturskostnaði þingmanna. Árið 2017 42,7 milljónir, 2018 30,7 milljónir, 12 millj. kr. lækkun, kannski ekki stórir peningar í samhengi fjárlaga og ýmislegs svoleiðis en samt. Áætlaður kostnaður 2019 26,1 milljón, 16,6 millj. kr. lækkun. Ég myndi alveg glaður geta kvittað undir, ég er búinn að sinna starfi mínu hér og borga launin mín og rúmlega það miðað við þetta. Mér finnst þetta mjög góð niðurstaða og sýnir hvernig gagnsæi borgar sig einfaldlega. Við þurfum að gera þetta meira og víðar, m.a. í dagpeningum ráðherra og þingmanna líka. Það er skjalfest í svörum þingsins við fyrirspurn minni um dagpeninga ráðherra að akstur á flugvöll er tvígreiddur, að matarboð eru ekki talin sem hlunnindi, að endurgreiðsla vegna útlagðs kostnaðar dagpeninga er ekki talin sem hlunnindi. Það er rosalega mikilvægt að átta sig á því hvað þetta þýðir. Þetta er ákveðið skattamál sem þarf að huga að. Þetta er viðurkennt í svarinu, opinberum gögnum þingsins, og enn er ekki búið að gera neitt í þessu. Það er enn ekki búið að skoða hversu mikið ráðherrar skulda í endurgreiðslu vegna þeirra hlunninda sem þeir fengu með útgreiðslu dagpeninga.

Eftirlitshlutverk okkar allra er mikilvægt. Mér finnst kannski gott að enda þetta með tilvitnun í svarið við fyrirspurn minni:

„Hefð hefur ekki skapast fyrir því að leggja sérstakt mat á umfangið þannig að það hafi leitt til frádráttar frá almennum dagpeningagreiðslum.“

Ekki hefur skapast hefð, segir hér, og það brýtur í raun lög og reglur. Hvað eftirlitshlutverk okkar þingmanna varðar er þetta (Forseti hringir.) gríðarlega alvarlegt og mér finnst mjög alvarlegt að ekki hafi verið brugðist við þessu.