150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir prýðilega skýrslu og góða yfirferð í sinni ræðu. Ég verð að segja að oftar en ekki er ég mjög sammála honum um áhersluatriðin sem komu fram í þessari ræðu. Ég fagna því sérstaklega að á ákveðnum sviðum, eins og t.d. varðandi bankainnstæður, ætlum við Íslendingar að fara strax í hagsmunagæslu frá upphafi en ekki að koma síðar meir í einhverju pólitísku offorsi eða tækifærismennsku og reyna að grípa í neyðarhemil. Neyðarhemill er til staðar en það er varla hægt að taka í hann nema við höfum unnið heimavinnuna okkar. Þannig að ég fagna því sérstaklega að ráðherrann leggi áherslu á þennan hluta og að Evrópusambandið og samstarfsþjóðir okkar séu mjög meðvituð um afstöðu okkar.

Í þeirri prýðilegu skýrslu sem Björn Bjarnason, Bergþóra Halldórsdóttir og Kristrún Heimisdóttir sömdu koma m.a. skýrt fram ráðleggingar um að setja upp stjórnstöð EES-mála og að EES-ráðherra verði settur yfir málin líkt og er gert varðandi Norðurlandaráðherrana og Norðurlandasamstarfið. Það hefur gefið góða raun. Mig langar að vita hvað ríkisstjórnin hefur gert til að fara að tillögum nefndarinnar, hvaða undirbúningur hafi átt sér stað, hvaða umræða hafi átt sér stað innan ríkisstjórnar og hvort þessar ráðleggingar séu komnar eitthvað áleiðis innan stjórnkerfisins.