150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er gott að heyra að það er samstaða um málið sem snýr að bankainnstæðunum. Það munaði ekki mjög miklu að það færi í gegnum þingið 2011, ef ég man rétt. Menn geta fundið bæði í greinaskrifum mínum og ræðum hvernig það mál stóð. En ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að við mótum okkur stefnu strax og það er mjög mikilvægt að það sé þverpólitísk samstaða um hana. Ég hef tekið þetta mál upp, eins og kom fram í ræðu minni, og viðmælendur mínir, alla vega á þeim fundum, hafa allir haft skilning á því. En það er ekki nóg. Við þurfum að klára vinnuna.

Varðandi stjórnstöðina og aðrar tillögur verð ég bara að segja að við höfum nýhafið þessa vegferð og það er góð samstaða um það í ríkisstjórninni að efla hagsmunagæslu enn frekar. Við höfum náttúrlega stigið mjög ákveðin skref. Ég held að það skipti líka svolítið miklu máli að heyra sjónarmið þingmanna í þessari umræðu. Ég held að áherslan í niðurstöðum skýrslunnar sé að líta á þetta meira sem innanríkismál þó að þetta séu svo sannarlega þjóðréttarlegir samningar. En þetta snýr að því og þannig er hagsmunagæslan byggð upp og þess vegna settum við fulltrúa inn í Brussel frá hverju fagráðuneyti. Það er hvert fagráðuneyti sem vinnur þessa vinnu og þannig verður það að vera nema menn vilji búa til nýtt stjórnarráð í utanríkisráðuneytinu sem ég held að sé afskaplega óskynsamlegt. Ég held að það sé skynsamlegt að yfirsýnin sé hjá einum ráðherra, hvort það er forsætisráðherra eða einhver annar ráðherra kemur í ljós. Við eigum auðvitað eftir að fara yfir þessar tillögur. Stutta svarið við spurningunni er einfaldlega þetta: Það er mikill vilji hjá ríkisstjórninni að efla hagsmunagæsluna enn frekar og m.a. mjög mikilvægt að kryfja þessa skýrslu með þinginu og þingnefndum.