150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:28]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hæstv. utanríkisráðherra. Það er mikilvægt að þingnefndir komi að þessu máli og það verði meira og dýpra samstarf þvert á flokka og síðan náttúrlega við ráðuneytið og framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnina. Mér fannst ég ekki alveg greina nægilega skýrt í svari ráðherra hvert hans viðhorf væri gagnvart því að koma upp stjórnstöð EES-mála annars vegar og síðan hvort hann teldi rétt að koma upp svipuðu fyrirkomulagi í EES-samstarfinu og ég nefndi varðandi ráðherra í Norðurlandasamstarfinu. Mér fannst ég skynja að hann vildi ekki að þetta færi úr utanríkisráðuneytinu eða að þetta væri allt saman á einni hendi. Ég bið um að hæstv. ráðherra útskýri það betur.

Ég er líka sammála því sem kemur fram í skýrslunni og fagna því að utanríkisráðherra taki það upp, að EES-málin eru fyrst og fremst orðin innanríkismál. Þau eru það. Það sýnir hvernig við Íslendingar höfum beitt okkur í alþjóðasamstarfi. Framsýnir stjórnmálamenn þvert á alla flokka, eða velflestir myndi ég kannski viljað sagt hafa, sáu tækifæri til að efla íslenskt samfélag í gegnum alþjóðasamstarf. Þeir beittu fullveldinu og fullveldisrétti til að styrkja innanríkismálin, styrkja stöðu okkar samfélags. Þess vegna er þessi skýrsla sem ég og fleiri munum ræða enn frekar á eftir gott dæmi um að það er verið að draga fram staðreyndir um atriði sem samstarf okkar við aðrar þjóðir hefur skilað til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag, fólk og fyrirtæki.

Svo að ég haldi áfram spurningum mínum til hæstv. ráðherra til viðbótar við stjórnstöðina og EES-ráðherrann: Hvernig sér hann þessum málum vinda fram? Hefur hann gefið sér tímalínu um hvernig við getum styrkt EES-málin, ekki bara innan ráðuneytis heldur líka héðan innan þingsins?