150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara fyrst spurningu hv. þingmanns er auðvitað eilífðarmál að gæta hagsmuna Íslands, m.a. í þessu samstarfi. Það er einhver misskilningur, ég hef væntanlega ekki talað nógu skýrt, ef menn halda að ég vilji hafa þetta allt í inni í utanríkisráðuneytinu. Ég var einmitt að fara yfir það að í fyrsta lagi er þetta ekki allt inni í utanríkisráðuneytinu og í öðru lagi vil ég alls ekki að þetta fari allt saman inn í utanríkisráðuneytið. Það þýddi að við þyrftum að setja annað stjórnarráð inn í utanríkisráðuneytið.

Ég tel að við höfum verið mjög lánsöm á þeim tíma þegar þessi samningur var gerður. EFTA var stærra en það er núna og þar voru ríki sem menn töldu á þeim tíma engar líkur á að færu inn í ESB. Þá er ég að vísa í Svíþjóð, Finnland og Austurríki. Þegar menn fóru í þessa vegferð stóð kalda stríðið yfir og menn töldu víst að út af hlutleysisstefnu myndu þau aldrei fara í ESB. Það var þess vegna búinn til samningur sem var að heita má nokkurn veginn á jafnræðisgrundvelli og átti að nýtast þessum þjóðum til langs tíma, þótt þau hafi síðan farið inn í Evrópusambandið. Við njótum góðs af því. Við vorum bara rétt þjóð á réttum tíma. Reyndar tel ég að ef ég ætti að velja núna þá myndi ég taka nokkurn veginn allt það sem er inni í samningnum núna, þó svo að maður vildi auðvitað breyta einhverju.

Varðandi stjórnstöðina og EES-ráðherrann er ég bara mjög opinn fyrir því. Hins vegar varðandi tímalínuna hefur það verið forgangsmál hjá mér frá því að ég kom inn sem utanríkisráðherra að efla hagsmunagæslu varðandi EES. Þetta mál og skýrslan eru grundvöllur til þess að við förum mjög gaumgæfilega yfir það. Þegar maður segir að maður hafi samstarf við þingið og þingnefndir þýðir það auðvitað samstarf. Þess vegna er þessi umræða hér. Við erum ekki í sérstakri tímaþröng, þetta er ekki eitthvert viknaspursmál, en við eigum hins vegar að vinna þetta hratt og örugglega og það væri langbest ef um það væri breið pólitísk samstaða þannig að þetta yrði ekki háð duttlungum einstakra stjórnmálamanna eða ríkisstjórnar og (Forseti hringir.) það er mín von að svo geti orðið.