150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og er sammála honum um að þessi skýrsla er unnin af metnaði og fagmennsku og er góður grunnur að umræðu sem er grundvöllur góðrar stefnumótunar. Ég hvet menn sérstaklega til að skoða tillögurnar um aðkomu Alþingis að hagsmunagæslunni. Ég er ánægður að fá líka stuðningsmenn í þessu máli mínu um ríkisábyrgð bankainnstæðna. Ég man ekki eftir því, hvorki innan þings né utan, að ég hafi fengið mikinn stuðning á sínum tíma þegar ég tók það mál upp. En það er nú bara eins og það er.

Hins vegar er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að gæta hagsmuna okkar. Seint mun sá sem hér stendur halda því fram að það þurfi ekki að gæta hagsmuna okkar gagnvart Evrópusambandinu en það er stór munur á því að vera búinn að undirbyggja það og taka á því á fyrstu stigum og bara að hlaupa til þegar menn eru búnir að vinna þetta jafnvel í áratug. Hv. þingmaður fer í gamalgróna umræðu um þriðja orkupakkann. Það stendur eftir af þeirri umræðu að einni spurningu er ósvarað, um stefnubreytingu forystumanna Miðflokksins sem komu að þessum undirbúningi og lögðu til við þingið að þetta yrði samþykkt óbreytt. Ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, og spyrja hv. þingmann: Veit hann af því? Hefur hann spurt formann og varaformann Miðflokksins af hverju þeir skiptu um skoðun? Það liggur fyrir skjalfest að þeir lögðu til að þetta færi í gegnum þingið og þá ekki með þeim ráðstöfunum sem við gerðum seinna, af því að hv. þingmaður er hér að vísa til þess að fara ágætlega yfir mótunarferlið og þá hluti sem við þurfum að gera og vera á varðbergi, án nokkurs vafa, ekki síst gagnvart Evrópusambandinu og embættismönnum þeirra.

Ég er forvitinn, virðulegur forseti, hvort hv. þingmaður geti upplýst okkur um það sem við vitum ekki. Af hverju skipti Miðflokkurinn eða forystumenn hans um skoðun?