150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti, bara örstutt. Ég vil gjarnan taka undir með hæstv. ráðherra og öðrum sem hafa lagt áherslu á að við beitum okkur miklu ákveðnar í þessu ferli öllu saman, sem er langt og strangt. Ég reyndar tel að orkupakkamálið sé mjög gagnlegur leiðarvísir í því máli. Í skýrslu sem er dagsett 19. mars og er lögfræðileg álitsgerð, lögð fram af hálfu lögfræðilegra ráðunauta utanríkisráðherra, eru slík viðvörunarorð að það hefði verið alveg nauðsynlegt að þau hefðu komið fram miklu fyrr og hægt hefði verið að beita sér miklu fyrr í þessu ferli, m.a. á grundvelli þeirra (Forseti hringir.) eindregnu viðvörunarorða sem mikilsmetnir lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar vörpuðu ljósi á með álitsgerð sinni.