Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni og það er engin ástæða fyrir hv. þingmann til að vera með neina afsökunarbeiðni, ég bara ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns. Orkupakkaumræðan snerist um orkupakkann. Allan tímann. En hins vegar, eins og ég leitaðist við að draga fram í ræðu minni áðan, varpaði orkupakkaumræðan óvæntu ljósi á vissa þætti í þessu samstarfi. Mest undrandi varð ég nú þegar ég gerði mér grein fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra virtist líta þannig á að við ættum allan samninginn undir ef við leyfðum okkur, ef við dirfðumst að fara að ráðum lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar sem þeirra aðaltillögu í málinu, þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, að fara með málið aftur fyrir sameiginlegu nefndina. Það er þessi óvænta sýn sem ég verð að viðurkenna að kom mér á óvart. Í ræðu minni áðan (Forseti hringir.) tengdi ég þetta líka við málið um öryggisráðstafanir gagnvart ófrosnu kjöti og ég styðst í (Forseti hringir.) þessu efni við traustan fræðilegan grundvöll og ég vitnaði í ritrýndar greinar í Tímariti lögfræðinga og víðar.