150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég tel að við munum halda áfram öllu því alþjóðlega samstarfi sem við höfum efnt til og tekið þátt í áfram eins og við höfum gert, með því að vera með opin augu, með því að vera vakandi, með því að starfa á grundvelli þekkingar og vitsmuna, upplýsingar. Það er mikilvægt að þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi og stefnumótun og framganga okkar þar sé rædd ítarlega á Alþingi og styðjist við þinglegan vilja.

Þess vegna lagði ég mikið upp úr því í ræðu minni áðan við umræðuna í dag, þar sem eru undir tvær skýrslur sem lúta að samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið, að við erum þátttakendur í ýmsu öðru samstarfi. Við erum stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu sem ég hef lýst áður sem einhverri mikilvægustu ákvörðun sem hefur verið tekin frá stofnun lýðveldisins og hún hefur skipað okkur í raðir vestrænna lýðræðisríkja. Ég tel að við höfum notið mjög góðs af því samstarfi. Við erum stofnaðilar að systurstofnununum Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við höfum óhikað í krafti fullveldis okkar tekið þátt í samstarfi sem við höfum talið að við ættum erindi í og sem þjónaði okkar hagsmunum. Við eigum gífurlega mikilla hagsmuna að gæta gagnvart því að eiga opna og greiða markaði fyrir okkar afurðir. Við þurfum mjög á því að halda og þess vegna hef ég stutt samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. En ég hef leyft mér, m.a. í dag og á fyrri stigum, að benda á vissar (Forseti hringir.) áskoranir, sem við getum kallað svo, sem við stöndum frammi fyrir í þeim efnum og ég hvet til þess að við tökum á þeim (Forseti hringir.) en stingum ekki höfðinu í sandinn og látum eins og þær séu ekki til.