Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki að ófyrirsynju að ég nefndi ákveðna dagsetningu í fyrri ræðu. Ég nefndi dagsetninguna 19. mars. Ég þarf að hugsa mig um hvort ég fari alveg örugglega rétt með hana en það er dagsetningin á lögfræðilegri álitsgerð þeirra tvímenninga Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, sem var auðvitað lykilplagg ásamt með öðrum ágætum gögnum sem lágu fyrir í orkupakkanum. Ástæðan fyrir því að ég geri þetta er að þarna kemur fram lögfræðileg álitsgerð af hálfu sérfræðinga, viðurkenndra sérfræðinga sem eru í fremstu röð og eru kallaðir til starfa af utanríkisráðherra sjálfum. Þarna eru slík viðvörunarorð, annars vegar um mögulegan árekstur við stjórnarskrá og hins vegar um að erlendir aðilar fái við ákveðin skilyrði, ítök í mikilvægum orkuauðlindum þjóðarinnar, að þessi skýrsla hefði þurft að koma fram miklu, miklu fyrr. Þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem er hér um að við beitum okkur í þessu ferli öllu saman á fyrri stigum (Forseti hringir.) en okkur auðnaðist að gera í orkupakkamálinu.