150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég er með handrit að ræðu sem ég ætlaði að flytja og geri það eftir nokkurn tíma. En það er auðvitað freistandi að dvelja aðeins við andsvörin sem hafa komið hérna. Andsvar hv. þingkonu Unnar Brár Konráðsdóttur við hv. þm. Ólaf Ísleifsson var mjög áhugavert. Ég er búinn að hlusta mikið á skýrslubeiðanda fjalla um skýrsluna eftir að hún kom út, bæði í útvarpi og hérna. Hann minnir mig pínu á kunningja minn sem fór einu sinni á tónleika og þegar ég hitti hann á eftir og spurði hann sagði hann: Tónleikarnir voru frábærir. En síðan kom 20 mínútna upptalning þar sem hann rakkaði niður hvert einasta lag og var orðinn svolítið súr. Þannig hefur mér fundist hv. þingmaður vera. Hann byrjar alltaf á að lýsa yfir stuðningi og hvað allt sé frábært við ávinninginn sem við höfum haft af þessum samningi. En síðan fer nú að síga á ógæfuhliðina eftir því sem hann talar lengur. Hann talar um að við eigum að ræða þessi mál af vitsmunum og þekkingu, eins og slíkt sé eingöngu að finna hjá Miðflokknum. 19. mars kom vissulega álitsgerð sem tveir ágætir fræðimenn lögðu fram fyrir ráðuneytið og innihélt ábendingu. Ég man ekki betur en að ríkisstjórnin hafi einmitt brugðist við og lagt fram aukafrumvörp og miðað við hana, þrátt fyrir að ég og mörg önnur teldum reyndar ekki neina þörf á því. En það er nú önnur saga.

Hv. þm. Ólafur Ísleifsson bað ásamt 12 þingmönnum um heildstæða úttekt á afleiðingum og virkni EES-samningsins á Íslandi. Hæstv. utanríkisráðherra brást við þeirri beiðni mjög fljótt og örugglega og setti á laggirnar þriggja manna starfshóp sem hafði það verkefni að leggja mat á ávinning Íslands af þátttökunni af EES-samstarfinu. Það var rætt við 147 einstaklinga frá fjórum ríkjum. Aðildin var sett í sögulegt samhengi og farið ítarlega yfir flesta þætti samningsins. Það er ástæða til að þakka í upphafi hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög snör og góð handtök í málinu en auðvitað ekki síður skýrsluhöfundunum, Birni Bjarnasyni, Kristrúnu Heimisdóttur og Bergþóru Halldórsdóttur, og öðrum sem komu að vinnu þessarar skýrslu.

Ég held að ég verði í upphafi að lýsa ánægju minni og raunar undrun því að ég held ég hafi sjaldan eða aldrei lesið jafn afdráttarlausan og skýran texta tengdan utanríkismálum á Íslandi. Þessi afdráttarlausa niðurstaða er sú að aðild að innri markaði Evrópu hafi verið hið mesta gæfuspor. Langflestum er ljóst að íslenskt samfélag tók stakkaskiptum við aðildina og án samningsins værum við miklu frekar í hættu á því að verða einangruð, stöðnuð. Það hefði hugsanlega kallað á afturför í íslensku þjóðlífi miðað við hvernig heimurinn í kringum okkur er. Með öðrum orðum: EES-samningurinn kom okkur kannski inn í nútímann. Ef það hefur verið hugmyndin á bak við þessa skýrslubeiðni að auka tortryggni í garð samningsins hefur sú svaðilför mistekist allhrapallega því staðreyndin er sú að Evrópusamvinnan, sem mætti auðvitað vera miklu meiri, hefur skilað okkur meiri velgengni, nýsköpun, samkeppnishæfi og almennri velsæld en ég held að flesta hafi grunað. Hún gegnir auðvitað líka miklu hlutverki þegar kemur að ströngum kröfum í félagsmálum, neytendamálum og umhverfismálum, sem eru stóru málin í dag. Okkur hafa í aldarfjórðung verið tryggð jöfn tækifæri og jöfn staða hvarvetna í Evrópu. Þetta er mikilvægt fyrir vinnandi fólk en ekki síður námsmenn sem skilar sér aftur í meiri þekkingu og betra samfélagi hérna á Íslandi. Þannig að ég held að það sé hafið yfir allan vafa að það er stórkostlegur ávinningur af þessum samningi. Ég gleymi auðvitað að nefna nokkuð sem skiptir miklu máli og er ekki bara ber á trjánum heldur kannski ræturnar að okkar samfélagi, sem er auðvitað hvað menningarstarfsemi og menntastofnanir hafa notið góðs af samstarfinu.

Mér heyrist samt á einhverjum ræðum sem hafa verið fluttar hérna að það sé full ástæða til þess að stíga fast í lappirnar og vera á varðbergi vegna þess að gagnrýnistónarnir eru þannig settir fram að mig grunar að það sé hægt og bítandi verið að reyna að gera þetta allt tortryggilegt. Í því ljósi var kannski bara frábært að við tókum rúman mánuð í umræðuna um orkupakka þrjú vegna þess að ég held að það hafi þjappað okkur hinum saman og aðrir flokkar sem kannski höfðu lýst yfir efasemdum komu á fullu og töluðu fyrir mikilvægi samningsins. Ég er því sammála hv. þm. Ólafi Ísleifssyni að umræðan um orkupakka þrjú var stórmál en kannski ekki í sama skilningi og hann leggur í það vegna þess að orkupakkinn var auðvitað lítið mál. Ég er heldur ekki sammála honum um að það mál eigi að vera sérstakur leiðarvísir fyrir þingið, a.m.k. ekki er varðar þingsköpin.

Hv. þingmaður talaði aðeins um heimsókn Baudenbachers og ég eiginlega verð að staldra aðeins við þar. Það hefði auðvitað verið miklu gagnlegra fyrir Miðflokkinn og Ólaf Ísleifsson ef það fólk hefði séð sér fært að sitja fundinn og hlusta á það sem þar fór fram. En Baudenbacher þessi er fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, hann er hættur þar og sinnir ráðgjöf og gat þess vegna, og tók það fram í upphafi fundarins, fjallað um hlutina frá víðara sjónarhorni en lögmenn sem fengu mjög afmarkað og tiltekið verkefni og þurftu að svara. Hann er Evrópumaður, búinn að lifa í hringiðu þessa samnings og evrópsku mannlífi í áratugi. Hann ræddi hlutina bæði frá lögfræðilegu sjónarhorni en ekki síður pólitísku. Hann tjáði sig býsna hressilega og afgerandi. Meðal þess sem hann nefndi var að það þyrfti að horfa á þessa hluti frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar er sú lögfræðilega staða sem er í málinu en hins vegar pólitísk staða. Um þá pólitísku ætla ég ekki að fjölyrða neitt hér en þó held ég að öllum sé ljóst að með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og með þeim flóttamannamálum sem Evrópusambandið hefur verið að glíma við og vandræðum í Grikklandi, á Ítalíu og á Spáni hlýtur Evrópusambandið að nálgast viðfangsefnið út frá öðrum vinkli en ef allt hefði leikið í lyndi. Það er eðlilegt, það hefðum við líka gert.

Ég ætla aðeins að staldra við lögfræðilega hlutann. Þar sagði Baudenbacher að vissulega væri það rétt að Ísland hefði þann möguleika á að skjóta málinu aftur inn í sameiginlegu EES-nefndinni í prinsippinu en ef ekki næðist neitt samkomulag þar, sem væntanlega myndi litast af pólitísku umhverfi af því að EES-samningurinn getur aldrei orðið bara lögfræðilegt plagg heldur verður alltaf pólitískt og mótast af þeim sem búa samninginn til og hverjir semja, og ef málið færi fyrir dómstóla, sagði hann og var mjög skýr, væru harla litlar líkur á því að við riðum feitum hesti frá þeim hluta málsins. Vegna þess að þá skiptir tímalínan öllu máli. Og hvað á hann við með því? Jú, það er hvernig við höfum hagað okkur fram að þeim degi sem við komum aftur inn með málið. Ef við skoðum það liggur fyrir að við erum búin að vera með málið í höndunum í tíu ár og á engum tímapunkti gerðum við athugasemd við þá þætti málsins sem Miðflokkurinn gerði að umtalsefni í vor. Málið er enn þá afkáralegra þegar horft er til þess að núverandi formaður Miðflokksins og núverandi þingflokksformaður voru lykilspilararnir á þeim tíma. Mér fannst því ekkert óeðlilegt, og reyndar mjög eðlilegt og rétt af hæstv. utanríkisráðherra, að velta þessu einmitt upp í andsvari við hv. þm. Ólaf Ísleifsson vegna þess að þetta skiptir máli. Þetta er kjarni málsins, hvernig við höguðum okkur í aðdraganda málsins.

Ýmsir stjórnmálamenn hafa á síðustu vikum og mánuðum gefið í skyn að í Evrópu sé fátt annað að finna en öfl og erlend ríki sem ásælist íslenskar auðlindir. Niðurstaða skýrslunnar hins vegar kýrskýr. Hún er sú að frekari aðkoma Íslendinga að fagstofnunum Evrópusambandsins sé til þess fallin að auka áhrif okkar á mótun EES-mála og þar með að víkka út og styrkja fullveldið. En til þess þurfum við auðvitað að huga að nauðsynlegri hagsmunagæslu.

Nú ætla ég að stökkva yfir kafla í ræðu minni því að ég eyddi of miklum tíma í andsvörin, en vil nefna samt nokkra hluti. Í fyrsta lagi verðum við að gera úrbætur í tengslum við stjórnarskrá Íslands. Við í Samfylkingunni höfum lengi talað fyrir því að það þurfi nýja stjórnarskrá og það þurfi að breyta og gera skýrara ákvæði sem heimilar okkur alþjóðasamvinnu, þ.e. framsalsákvæði. Mér finnst skýrsluhöfundar taka undir þetta og segja vafa um að t.d. stjórnarskrá Íslands heimili fulla aðild að EES-samstarfinu og að það veiki stöðu okkar gagnvart samstarfsríkjum okkar, einkum Noregi og Liechtenstein. Að mínu áliti þarf íslenska þjóðin þá að ganga lengra og setja sér opnara framsalsákvæði sem gerir þjóðinni mögulegt og kleift, vilji hún það, að takast á hendur frekari og stærri alþjóðlegar skuldbindingar og samstarf. Ég held að það blasi við í þeim málum sem bíða okkar, fjórðu tæknibyltingunni, loftslagsvandanum og öðru slíku, að þar eru viðsjár sem eru þess eðlis að það er ekki hægt að taka þátt að fullu og ekki einu sinni hægt að vinna bug á vandamálunum sem bíða okkar öðruvísi en með miklu meira samstarfi þjóða. Þess vegna segir í skýrslunni að EES-aðild móti allt þjóðlífið og það eigi að forðast að skilgreina hana sem erlenda ásælni.

Skýrsluhöfundar eru einnig með áhugaverðar úrbætur þegar kemur að okkur stjórnmálamönnunum og segja reyndar að við verðum að sinna þessu betur og fylgja betur eftir þeim skyldum sem á okkur eru lagðar, að hafa áhrif á málin fyrr. Ég er sammála því að það þarf að samhæfa á öflugan hátt frumkvæði, hagsmunagæslu og eftirfylgni við framkvæmd EES-samningsins. Það er ágætt að fara yfir þessa vel uppsettu og góðu skýrslu. Þar eru, að mig minnir, 15 úrbótaliðir og það er hægt að taka undir marga þeirra. Ég held hins vegar að við eigum að ganga lengra en það er önnur saga og kannski ekki til umræðu hér. Ég held að það hafi margsýnt sig að aðgengi okkar að stöðugri og öflugri gjaldmiðli myndi skapa ný og betri tækifæri, öryggi fyrir heimilin og sóknarfæri og stöðugleika fyrir lítil og meðalstór nýsköpunarfyrirtæki sem vilja vaxa en þurfa á endanum að hrökklast út úr hagkerfi okkar eins og staðan er í dag. Ég skil að um það er meiri ágreiningur en sjálfan EES-samninginn en ég held að tíminn muni á endanum leiða okkur þangað inn og ég fagna því.

Þetta er löngu tímabær umræða sem við þurfum að eyða miklu meiri tíma í. Um leið og við þurfum að vera dugleg og nota hvert tækifæri til að halda staðreyndum til haga þurfum við líka alveg örugglega, heyrist mér, að vera á varðbergi gagnvart popúlískum, þjóðernissinnuðum öflum sem vilja helst reisa girðingu í kringum landið og halda að tímabundið sé best um okkur búið þannig.