150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Við deilum þeirri skoðun að EES-samningurinn hafi verið góður fyrir Ísland og að þátttaka okkar í því samstarfi skapi grundvöll fyrir betra samfélag sem er til þess fallið að laða til sín ungt fólk þannig að ungt fólk geti valið sér að búa hér en ekki erlendis, þ.e. að Ísland sé samkeppnishæft við aðrar þjóðir. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í framtíðina. Þegar ég bað um andsvarið var hv. þingmaður ekki búinn að lýsa yfir þeirri ósk sinni að við tækjum þátt í samstarfinu í 25 ár í viðbót þannig að ég átta mig á því að þingmaðurinn óskar eftir því. En hvað um aðild að Evrópusambandinu? Er hv. þingmaður þar með að lýsa því yfir að Íslandi sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið sjálft en í sterkum og góðum samskiptum við Evrópu í gegnum EES?