150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:48]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlega gaman að fá að sitja úti í sal í þessu dásamlega húsi, í þingsal í þessu mesta vígi lýðræðisins hér á landi og við getum talað um elsta þingið og allt það, og hlusta á málefnalega umræðu um eitt mikilvægasta skref sem við Íslendingar stigum á sínum tíma. Ég þakka sérstaklega fyrir það að þessi skýrsla hafi verið gerð, bæði skýrslubeiðendum fyrir að setja beiðnina fram en líka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa tekið vel í þetta og ekkert fum eða fát verið á því að skipa fólk strax til verka. Það hefur þýðingu hverjir setjast í svona nefnd. Ég tel að það hafi verið mikil gæfa að við fengum þessa þrjá einstaklinga til að gera úttektina, draga fram staðreyndirnar sem hafa fylgt okkur og við fengum fram í gegnum EES-samstarfið. Þessir einstaklingar eru Björn Bjarnason, sem hefur einna yfirgripsmestu þekkingu hér á íslenskri sögu og utanríkismálum, Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir. Ólíkt fólk og kemur víða að en dregur að mínu mati fram það sem skiptir okkur máli; nálgast hlutina af hófsemd og virðingu en fyrst og fremst miðla þau á endanum þessari skýrslu sem er staðreyndamiðuð. Þau fara þá leið að draga fram staðreyndirnar og ég vil fagna því, sérstaklega fyrst ekki var gefinn meiri tími. Við hefðum þurft meiri tíma til þess að fara dýpra ofan í þetta, kortleggja kostina og gallana. Þá er það okkar sem hér erum að reyna að meta það út frá okkar sjónarmiðum, okkar viðmiðum og hagsmunum fyrir íslenskt samfélag hvernig við metum síðan EES-samninginn. Það er gríðarlega mikilvægt að það sést svart á hvítu í þessari skýrslu hver ábatinn er og hverjar staðreyndirnar eru sem við stöndum frammi fyrir eftir þetta gifturíka samstarf í 25 ár.

Ég kom heim í gærkvöldi frá NATO-þinginu þar sem kom fram að það vantar upplýsingar til kynslóðanna sem koma á eftir mér og flestum hér á þingi, og það er umhugsunarefni. Yngri kynslóðir hafa ekki mikla þekkingu á mikilvægi, eðli og inntaki NATO. Það kemur fram í könnunum. Þetta er ekki eitthvað sem ég er að skálda heldur sjá menn að það vantar meiri upplýsingar um það af hverju við tökum þátt í samstarfinu, mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag. Það sama gildir að mörgu leyti varðandi EES-samninginn. Mér finnst gott að skýrsluhöfundar draga það fram að við göngum að ákveðnum hlutum gefnum. Þeir nefna sjúkrakortið sem þúsundir Íslendinga hafa nýtt sér og það sem börnin mín, vinir mínir, hafa gengið að sem vísu, að geta farið og lært hvar sem er, sótt um styrki í gegnum menningarmál og vísindamál sem við hefðum ekki fengið nema af því að við erum aðilar að EES-samningnum. Þetta er gríðarlega mikilvægt.

Mikilvægi samningsins hefur víða komið fram og síðast í kjördæmavikunni drógu ýmis fyrirtæki sem við í Viðreisn heimsóttum einmitt fram mikilvægi þess að við urðum aðilar að EES-samningnum. Ég get nefnt dæmi og ekki bara þau fyrirtæki sem við höfum blessunarlega séð vaxa og dafna og styrkjast eins og Nox Medical, Marel, Völku, Curio og Össur og öll þessi stóru frábæru fyrirtæki sem hafa haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir okkur og íslenskt samfélag upp á það að veita unga fólkinu okkar tækifæri, heldur ekki síður til að mynda í fluggeiranum. Það kom skýrt fram hjá því stóra fyrirtæki Airport Associates að þeir lögðu af stað eftir að EES-samningurinn kom til skjalanna. Þá opnaðist sá markaður, þá opnaðist ákveðið samkeppnisumhverfi á flugmarkaði þótt íslenskt regluverk hafi verið lengi að taka við sér, mótaðist svolítið af þeim eina stóra aðila sem fyrir var á markaði er það engu að síður þannig að við erum með öflugt fyrirtæki sem veitir hundruðum manna tækifæri og vinnu og við getum þjónustað fleiri. Og talandi um flugið: Aðildin að EES-samningnum opnaði m.a. möguleika fyrir íslenskar flugvélar til að lenda í Bandaríkjunum í gegnum EES-samstarfið. Þá opnuðust margar dyr. Það hjálpaði okkur að geta lent þar á hvaða flugvelli sem er.

Auðvitað er líka hægt að spyrja: Hvað gerum við Íslendingar við þá þætti sem eru ekki í EES-samningnum? Þá hefði ég nú haldið í gegnum áraraðirnar að við myndum nýta tækifærið til að ýta enn frekar á það því að þar höfum við svigrúm til þess að sýna meiri djörfung og höfum meira frelsi til að móta okkar reglur. Hvað gerum við þar? Ég bendi á landbúnaðinn. Þar er ekki verið að auka frelsið. Þar er ekki verið að opna markaðinn eða ýta undir samkeppni heldur mótum við okkar séríslensku reglur. Þá er minni neytendavernd. Þá erum við með undanþágur frá almennum reglum samkeppnismarkaðar. Gott dæmi um það er þegar við höfum ekki aðhald, m.a. að utan, í gegnum virkt öflugt alþjóðasamstarf, að við séum fullir þátttakendur í alþjóðasamstarfi. Það höfum við Íslendingar blessunarlega nýtt okkur þegar kemur að EES-samningnum.

Orkupakkinn hefur verið mikið hér til umræðu og ég er sammála því sem menn hafa sagt: Það var ekki málið til þess að blása upp. En það er engu að síður viðvörun til okkar sem viljum að EES-samningurinn lifi og dafni, svo lengi sem við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu. Ég heyri að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ráðherra koma hér upp og spyrja hvað við viljum með EES-samninginn. Það er alveg ótvírætt af hálfu okkar Viðreisnar að við viljum að hann dafni og vaxi meðan við erum ekki aðilar að ESB.

Auðvitað var margt annað sem orkupakkaumræðan sýndi okkur. Hún er viðvörun til okkar allra að spyrna við fótum þegar ákveðin öfl, M-hópurinn, eins og ég kalla hann, í íslensku samfélagi, hvort sem það er Miðflokkurinn, Mogginn eða menn jafnvel innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, hafa sýnt ákveðna tilhneigingu til að tala EES-samninginn niður og ég vil vara við því. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að við létum í okkur heyra, við svöruðum fullyrðingum sem sumir hverjir kölluðu rugl og bull. Það er hægt að taka undir það að einhverju leyti, alla vega var ekki hlustað á svörin sem voru veitt mjög gaumgæfilega. Ég vil hrósa m.a. hæstv. utanríkisráðherra fyrir þau svör sem voru veitt og utanríkismálanefnd sem fór markvisst í þá umræðu að svara spurningum sem voru settar fram, hugsanlega með góðum ásetningi eða í einhverjum öðrum tilgangi. Því var öllu gaumgæfilega svarað. Þegar við skoðum tímalínuna þá eru þetta tíu ár og við Íslendingar gerðum einmitt það sem EES-samningurinn ýtir undir að við eigum að gera og eigum að sinna og þessi skýrsla hvetur okkur öll til þess að gera, þ.e. að passa upp á samstarfið, vera fullir þátttakendur í því og koma að okkar athugasemdum, reyna að leysa ágreining, ekki á seinni stigum heldur á fyrri stigum, að leyfa sérfræðingahópunum og fulltrúum stjórnvalda að takast á á fyrri stigum og leysa málin þar. Það tel ég að sé gríðarlega mikilvægt og mér fannst gott að sjá að skýrsluhöfundar voru nákvæmlega á sama máli, að vera ábyrgur þátttakandi alveg frá upphafi.

Það var mikið rætt um neyðarhemilinn á sínum tíma í tengslum við orkupakkaumræðuna. Er hann til staðar? Já, hann er til staðar. En ef neyðarhemillinn er nýttur vegna þess að menn unnu ekki heimavinnuna sína eða af því að einhverjir flokkar eru í vandræðum og þurfa að beina athyglinni að einhverju öðru en sjálfum sér, þá getur það verið stórskaðlegt fyrir EES-samstarfið. En auðvitað er hann til staðar ef það er raunverulegt neyðarástand. Það er alla vega mín afstaða til þessa þáttar.

Ég fagna því sérstaklega sem segir líka í skýrslunni að líta beri á fagstofnanir og starf þeirra sem tækifæri fyrir EES-ríkin en ekki ógn. Þetta er ekki ásælni eins og margir reyna að benda á, m.a. innan Miðflokksins, heldur er þetta samkomulag um að hafa samræmi á reglum. Við skulum hafa í huga að talað var við 147 aðila. Hver var tónninn hjá þeim öllum? Nema tveimur: Nei til EU, sem eru norskir aðilar, sem er náttúrlega umhugsunarefni. Það hefði nú heyrst hljóð úr horni ef Ja til EU hefði verið að skipta sér af þessu, þá hefðu menn talað um að það væru afskipti af fullveldi okkar Íslendinga. Síðan var það Frjálst Ísland sem er að mínu mati öfugmæli fyrir þann hóp. En það voru bara þessir tveir aðilar. Allir aðrir, og það var undirstrikað af hálfu skýrsluhöfunda á fundi okkar í utanríkismálanefnd, reyndu að beina athyglinni að því að tilheyra regluverki sem er alþjóðlegt. Þegar okkar fólk, hvort sem það er ungt eða gamalt, fer af stað með sprotafyrirtæki þá getur það gengið að því vísu að það geti farið til útlanda og sagt: Kæru vinir, við erum með nákvæmlega sama regluverk og þið. Það er ótrúlega mikilvæg hindrun sem hefur verið ýtt úr vegi með EES-samningnum.

Það var dregið fram af hálfu eins skýrsluhöfundar að þau reyndu í þessum viðtölum við aðila vinnumarkaðarins og fleiri að toga fram hvað væri raunverulega að EES-samningnum. Alltaf sögðu viðmælendur að þeir ýttu þeim parti til hliðar út af þeim gríðarlega miklu hagsmunum sem fælust í því að tilheyra heild, tilheyra samfélagi þjóða og hafa eitthvað um það að segja. Og við Íslendingar, eins og kemur fram í skýrslunni, höfum mjög mikið um það að segja. Ef það er þannig, og þar er m.a. orkupakkaumræðan viðvörunarljós fyrir okkur sem viljum vera í alþjóðasamstarfi, viljum styðja við EES-samninginn, viljum náttúrlega helst fara í ESB en viljum engu að síður passa upp á EES-samninginn, að hann er ekki bara talaðar niður heldur sé grafið undan honum — og það er mjög auðvelt, eins og var reynt með markvissum hætti, að grafa undan EES-samningnum — þá verða menn að spyrja: Hvað vilja menn þá? Það er alveg skýrt og dregið mjög vel fram í skýrslunni og fleiri sérfræðingar hafa bent á það líka að við Íslendingar munum ekki fá annan eins samning. Tvíhliða samningar í dag munu ekki komast í hálfkvisti við það sem EES-samningurinn er. Hvað er það þá sem menn vilja bjóða upp á? Það er allt í lagi að endurskoða samninga sem eru okkur óhagstæðir í þeirri von að þeir verði betri en það er ekki í þessu tilfelli. Það er alveg ljóst að við fáum ekki betri samning, fjölþjóðasamning, en EES-samninginn, ekki nema kannski að fara eins og ég segi í ESB. Þetta hljóta menn að hugsa. Þróunin núna í tvíhliða samningum sem og fríverslunarsamningum er að reyna að fara í áttina að EES. Menn munu engu að síður ekki ná því. Það er alveg ljóst ef samningur Kanada við ESB er rýndur að hann veitir Kanada ekki nándar nærri sömu tækifæri eða sömu möguleika og sömu réttindi og EES-samningurinn veitir okkur Íslendingum. Þó að við Íslendingar viljum af góðum hug ná öflugum samningi við Bandaríkin — ég vara við því að ætla að fara að blanda viðskiptum við Bandaríkin saman við okkar varnarhagsmuni — og ef og þegar við semjum við Bandaríkin þá er mjög ólíklegt að við náum jafn umfangsmiklu samstarfi og samningi við Bandaríkin og við höfum varðandi mennta- og vísindasamstarf, sjúkrakort eða réttindi einstaklinga í gegnum EES-samstarfið.

Þetta er ákveðinn gullmoli sem við verðum að passa sameiginlega upp á. Þess vegna fagna ég því sem kom í ljós í gegnum orkupakkaumræðuna að við sem viljum passa upp á EES-samninginn stóðum okkar vakt. Það er þó náttúrlega best varðveitta leyndarmálið að ég hefði viljað sjá þá umræðu tekna miklu fyrr og við komumst að vissu leyti í þessi vandræði af því að ríkisstjórnarflokkarnir, eða kannski sérstaklega menn innan Sjálfstæðisflokksins, voru ekki nógu einarðir í því að taka þessa afstöðu, hugsanlega vegna þessara ýfinga Miðflokksins. En gott og vel. Þessi skref voru síðan stigin og það skiptir máli og ég undirstrika aftur að ég er ánægð með það hvernig menn héldu á málinu eftir að þeir tóku loksins þessa ákvörðun.

Virðulegur forseti. Ég sé að tíminn er að renna út. Ég var rétt að byrja. Ég vil undirstrika það fyrir hönd okkar í Viðreisn að við viljum standa vörð um EES-samninginn. Við fögnum þessari skýrslu sem dregur einmitt fram mikilvægi þess að þau skref sem við höfum stigið í alþjóðasamstarfi sem fullvalda þjóð hafi styrkt fullveldi okkar og aukið hagsæld okkar Íslendinga.