150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst um margt mjög góð og málefnaleg. Ég veit hins vegar ekki að hverju hv. þingmaður er að ýja gagnvart okkur Sjálfstæðismönnum í tengslum við það mál og hvet hv. þingmann til að tala skýrt hvað það varðar, svona dylgjur eru ekki til fyrirmyndar. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að vísa í varðandi varnarhagsmuni Íslands við hugsanlega fríverslunarsamninga við Bandaríkin. Engar fríverslunarsamningaviðræður við Bandaríkin eru hafnar og við vitum alveg hvernig samskiptum Íslands og Bandaríkjanna er háttað. Við erum með tvíhliða varnarsamning, við erum saman í NATO. Ég hvet hv. þingmann til að tala skýrt um það sem hann vísar til. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að fara, hún talar oft með þessum hætti án þess að botna það. Við Íslendingar höfum hins vegar beitt þessu hér fyrir löngu og ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur verið ósátt við það. Við þekkjum það í landhelgisdeilunni — ekki var ég hér og ekki hv. þingmaður heldur — að menn beittu því miskunnarlaust fyrir sig þegar við börðumst í þorskastríðunum við Breta á sínum tíma. Kannski hv. þingmanni finnist sem þeir sem voru þá í ríkisstjórn og á þingi, ég held að vísu að góð sátt hafi verið um það á þingi að ganga þannig fram, hafa gengið of langt. En það er ekkert slíkt uppi á borðum núna og ég hvet hv. þingmann annaðhvort til að hætta þessum dylgjum eða tala hreint út um það til hvers hún er að vísa.