150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:05]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Nú fer ég að kannast aðeins betur við hæstv. utanríkisráðherra en ég vil líka þakka honum vinsamleg orð í minn garð varðandi umræðuna um EES-samninginn. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. utanríkisráðherra hefur talað um efnahags- og viðskiptasamráð Íslendinga gagnvart Bandaríkjamönnum á sama tíma og utanríkisráðherra og varaforseti Bandaríkjanna koma hingað í augljósum tilgangi. Ég trúi ekki að utanríkisráðherra hafi ekki áttað sig á því að Pence mætti hingað á fund til að ræða varnarhagsmuni meðan Íslendingar voru að reyna að ræða eitthvað allt annað. Það hefði líka mátt ræða eitthvað annað, eins og t.d. loftslagsmál, með markvissari hætti.

Það sem ég er að segja, m.a. í ljósi þekkingar á sögu þess flokks sem hæstv. ráðherra er í, er að varnarhagsmunum hefur ekki verið blandað saman við viðskiptahagsmuni. Menn hafa reynt að draga strik í sandinn þar. Af hverju eru menn að draga þetta fram núna? Við vorum að tala um NATO í gær og NATO-fundinn sem var núna. Það er verið að vara við þessu um allt, t.d. með Kínverja. Kínverjar og Bandaríkjamenn eru í blússandi kapphlaupi um að ná yfirráðum víða, m.a. á norðurslóðum, og þá verðum við einfaldlega að hafa unnið okkar heimavinnu, ákveða hvað það er sem við ætlum að setja fram í krafti varnarhagsmuna okkar og síðan getum við talað sjálfstætt um efnahags- og viðskiptasamráð. Þetta eru engar dylgjur, menn verða einfaldlega að þora að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Við þurfum að gæta að öryggishagsmunum okkar á norðurslóðum og þeir hagsmunir eru nátengdir loftslagsbreytingum. Þeir eru nátengdir ýmsu öðru, m.a. því hvernig við viljum sjá skipulagið á norðurslóðum verða. Þess vegna tel ég miklu betra fyrir okkur Íslendinga að vera í hópi Evrópuþjóða sem leggja áherslu á loftslagsmálin á þeim forsendum sem við Íslendingar getum tekið undir en ekki á forsendum Bandaríkjaforseta sem er enn í blússandi afneitun gagnvart loftslagsbreytingum dagsins.