150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki varð þetta nú til að skýra málið. Hv. þingmaður vísaði til heimsóknar varaforsetans Mikes Pence. Við tókum sérstaka umræðu í Höfða með leiðtogum í viðskiptalífinu, bæði frá Bandaríkjunum og á Íslandi, um efnahagssamráð. Eins og alltaf þegar við hittum fulltrúa Bandaríkjanna, og það er engin frétt, ég held að það hafi alltaf gerst, ræddum við eðli málsins samkvæmt öryggis- og varnarmál. Nema hvað? Hvert var helsta umræðuefnið á milli Norðurlandanna, á fundi utanríkisráðherra í Borgarnesi? Það voru öryggis- og varnarmál. Hvað er hv. þingmaður að fara? Ég skil það bara ekki. Hv. þingmaður gerir ekkert til að útskýra þessar dylgjur sínar.

Við höfum keyrt á það að auka fríverslun okkar Íslendinga, það hefur gengið ágætlega varðandi Kínasamninginn á þessu kjörtímabili, sömuleiðis er efnahagssamráð byrjað varðandi Japan og einnig Bandaríkin. Aukinn kraftur hefur síðan færst í EFTA og við sjáum hér bæði fríverslunarsamning við Indónesíu og Mercosur svo að eitthvað sé nefnt. En ég verð að biðja hv. þingmann um að útskýra hvað er hér á ferð, hún hefur svo sannarlega ekki gert það. Ég er hjartanlega sammála henni um að ekki megi grafa undan EES-samstarfinu en þeir sem hafa grafið undan því fram til þessa eru ESB-sinnar, m.a. með fullyrðingum um að við tökum 90% af öllum gerðum frá Evrópusambandinu upp í EES-samninginn, sem er augljóslega ósatt eins og kemur fram í skýrslunni, ásamt ýmsum öðrum fullyrðingum. Ég spyr hv. þingmann í mestu vinsemd hvort við getum ekki treyst því að ESB-sinnar reyni að finna önnur rök fyrir máli sínu en að grafa undan EES-samningnum. Ef svo væri yrði það stefnubreyting sem ég myndi fagna mjög og hrósa hv. þingmanni og öðrum ESB-sinnum fyrir hvar sem ég gæti.