150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:10]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Hér var utanríkisráðherra Íslands að tala sem hittir fólk á fundi, aðra ráðherra, sem setur fram ákveðna hluti. Ég veit í raun ekki í hvaða veruleika hæstv. ráðherra er þegar hann talar um að ESB-sinnar séu að grafa undan EES-samningnum. Öðruvísi mér áður brá. Hvers konar útúrsnúningar eru þetta? Hvers konar Morfís-ræðumennska er þetta? Hvað er eiginlega í gangi? Þetta er alveg með ólíkindum. Það er margsannað, og við sýndum það m.a. í orkupakkaumræðunni, að ef stjórnarandstaðan hefði ekki verið til staðar, Viðreisn, Samfylkingin og Píratar, hefði stjórnin verið í blússandi vandræðum með orkupakkamálið, bullandi vandræðum. Það var líka forvitnilegt að vera á fundi utanríkismálanefndar þar sem einn af skýrsluhöfundunum varaði við því, m.a. eftir orð formanns, að tala niður EES-samninginn, að ekki mætti gera lítið úr EES-samningnum, segja að hann væri svo flókinn, svo erfiður og við mættum ekki gera samninginn þannig og fyrirkomulagið að það myndi flækja stjórnsýsluna.

Það vita allir sem fylgjast með íslenskri pólitík að þetta hefur verið vandræðamál og erfitt innan Sjálfstæðisflokksins. Það er ekkert að því að viðurkenna það. Ég er búin að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að vera kominn á réttu brautina. Og talandi um skilaboð af fundum utanríkisráðherra með öðrum ráðherrum eða forystumönnum annarra þjóða þá voru þau bara ekkert mjög skýr þegar Pence var hér. Hvað var rætt? Það var rætt um Belti og braut, það voru síðan einhverjar leiðréttingar á eftir. Ef það er einhver sem þarf að tala af meiri skýrleika þá er það ráðherrann sjálfur.