150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var ágæt að mörgu leyti og við deilum þeirri skoðun að EES-samningurinn hefur reynst okkur Íslendingum vel og hefur styrkt okkur í alþjóðasamstarfi, og viðskiptahagsmunir okkar krefjast þess beinlínis að við verðum áfram í EES. En ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hún minntist á það að í umræðunni um orkupakkann hefðu verið hér aðilar sem tóku sér það leyfi að grafa undan EES-samningnum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hún átti við með þeim orðum og eins hvaða afleiðingar hv. þingmaður telur að slíkt hafi bæði hér innan húss og eins gagnvart Íslandi í alþjóðasamhengi.