150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:13]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar. Það sem ég reyndi að draga fram var að orkupakkaumræðan er umræða sem ég spái að við eigum eftir að upplifa aftur og aftur. Annað mál verður tekið upp og reynt verður að hertaka það þannig að öllum staðreyndum verður snúið á hvolf, reynt verður að gera staðreyndir tortryggilegar og einhver annar veruleiki settur upp en til staðar er. Það sem ég upplifði í orkupakkaumræðunni var að ekki var hlustað á svörin heldur var farið út í einhverja allt aðra sálma. Hvað gerum við með því? Þá erum við að grafa undan EES-samningnum. Við Íslendingar þurfum — ég kom því ekki að áðan í ræðu minni — að treysta stjórnskipulegan grundvöll EES-samningsins. Það þarf ekki endilega að vera gert í gegnum framsal, eins og skýrsluhöfundar benda á, heldur líka með því að styrkja stjórnlagaregluna í kringum EES-samninginn með því að festa hana betur í sessi. Hægt er að fara tvær leiðir. Það er það sem ég er að tala um, að grafið hafi verið undan samningnum sem slíkum. Ég vona því að orkupakkaumræðan verði okkur ákveðinn lærdómur. Og ég skil hv. þingmann þannig að hún sé einlægur stuðningsmaður EES-samningsins, ég fagna því. Þess vegna held ég að sú umræða hafi verið okkur öllum ákveðið víti til varnaðar af því að Ísland verður ekkert undanskilið þeirri þróun sem við erum að upplifa í lýðræðislegum ríkjum, m.a. innan EES-ríkjanna eða ESB-ríkjanna, og þess vegna þurfum við að vera á varðbergi.

Ég er enn þeirrar skoðunar — ég tók eftir því að við fögnum frelsi og markaði og öllu því góða sem EES-samningurinn er. Ég held, talandi um landbúnað, að hann gæti orðið enn öflugri, enn sterkari innan ESB ef við færum þangað af því að við erum enn ekki með opinn markað þar. Við eigum að stokka upp kerfið okkar með það að markmiði að styrkja bændur og auka frelsið samhliða.