150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég á ekki fast sæti hér á þingi, ég er varaþingmaður og verð að segja, eftir að hafa fylgst með umræðunni um orkupakkamálið utan úr bæ, að ekki var hægt að skilja andann í umræðunni öðruvísi en að hér væru aðilar innan Miðflokksins að tala gegn aðild Íslands að EES-samningnum, alla vega upplifði þessi borgari þá hluti og fannst leiðinlegt að horfa upp á það. En aðeins annar tónn er í umræðunni hér af hálfu þess sem nú hefur talað af hálfu Miðflokksins og það er svo sem ágætt.

En ég verð að segja fyrst hv. þingmaður fer aðeins inn á landbúnaðinn að við deilum ekki þeirri skoðun að það sé gott fyrir íslenskan landbúnað að Ísland verði aðili að ESB. Það tel ég ekki vera. En við getum hins vegar styrkt íslenskan landbúnað. Það er alveg hægt að gera og við getum valið okkur að gera það. Ég trúi því að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi einmitt það markmið. Sú ríkisstjórn sem nú situr er m.a. að vinna að gerð matvælastefnu fyrir Ísland sem verður gríðarlega mikilvægt leiðarljós fyrir okkur öll um hvert við ætlum að stefna. En umræður um landbúnaðarmál eru tilefni til sérstakra umræðna við hv. þingmann.