150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Aðeins um landbúnaðinn, við þurfum fyrst og fremst að auka frelsi í landbúnaði. Ég hef margítrekað að við í Viðreisn erum ekki að tala um minni stuðning til bænda. Við erum einfaldlega að tala um að taka þennan beina og óbeina stuðning, sem samtals getur verið 35 milljarðar, og setja hann beint inn í landbúnaðarkerfið gegn þeim skilyrðum að menn hugsi enn meira til jarðræktar, styrki það sem hægt er að gera á landinu frekar en að það fari beint í framleiðslustyrki eins og er í dag. Ég held að það væri mikið gæfuspor fyrir íslenska bændur, alla vega að hugsa það. Við þurfum kannski ekki að vera aðilar að ESB til að gera það, en það hefur sýnt sig að einmitt á landbúnaðarsviðinu höfum við ekki nýtt tækifæri til að vera algjörlega óháð öllum öðrum og nýtt skrefið til fulls og verið með aukið frelsi innan landbúnaðar. Miklu frekar höfum við hert upp reglur, komið upp kerfi sem passar milliliðunum frekar en bændum og neytendum o.s.frv. Ég vil bara sjá uppstokkun á því.

Ég er fegin að hv. þingmaður horfir á umræðuna um orkupakkann sömu augum og ég, eins og ég skildi hana. Ég óttaðist það af því að verið var að ræða við og hringja í þingmenn, m.a. frá hópnum Nei til EU sem er líka byrjaður að tala gegn EES-samningnum, það var verið að hafa samband við íslenska þingmenn út af því og vara við þessu skrefi — mér finnst það stóralvarlegt mál. Það undirstrikar að miklu meira hékk á spýtunni en bara orkumálin sem slík þar sem við erum búin að tryggja með ráðum og dáð að allar ákvarðanir tengdar orkunýtingu eru okkar, ekki annarra. Þannig höfum við að mínu mati unnið vel okkar heimavinnu, þvert á flokka, og má þakka það.