150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og aðrir ræðumenn hér í dag vil ég þakka fyrir þær skýrslur sem hér liggja fyrir. Annars vegar er skýrsla utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins, sem verður árleg skýrsla og er gagnlegt að fá hana inn hér; áður hefur hún verið hluti af skýrslu utanríkisráðherra um alþjóðamál sem að jafnaði er rædd á vorin en það er, held, ég mjög gott að fá sérstaka umræðu um þann mikilvæga þátt í okkar störfum sem lýtur að EES-samstarfinu og fagnaðarefni að við tökum hana nú í fyrsta sinn. Síðan vil ég líka þakka fyrir skýrslu sem utanríkisráðherra lét gera, m.a. á grundvelli skýrslubeiðni sem kom fram í þinginu, og ritstýrt var af Birni Bjarnasyni, Kristrúnu Heimisdóttur og Bergljótu Halldórsdóttur. Sú skýrsla er mikill fengur fyrir okkur í mörgum skilningi. Hún dregur skýrt fram innihald og eðli EES-samningsins og hvernig framkvæmd hans hefur verið og er þess vegna mikilvægur grunnur undir umræður um þau mál í framtíðinni. Svona skýrsla svarar auðvitað aldrei öllum spurningum en hún er hins vegar samantekt upplýsinga og staðreynda sem við getum nýtt okkur til þess að umræðan í framhaldinu sé á þokkalega vitrænum grundvelli.

Ég ætla ekki að fara yfir einstaka efnisþætti mála nema í nokkrum atriðum sem ég vil nefna sérstaklega á eftir en ég vildi hins vegar, áður en lengra er haldið, taka undir það sem komið hefur fram í ræðum allra ræðumanna í dag, EES-samningurinn hefur reynst okkur afar hagstæður. Þessi skýrsla undirstrikar það og ég held að allar aðrar athuganir og skýrslur, hvort sem það hefur verið á vegum opinberra aðila eða félagasamtaka á undanförnum árum, hafi leitt í ljós að EES-samningurinn hefur reynst okkur mjög vel, fært okkur tækifæri sem við Íslendingar höfum í meginatriðum nýtt vel. Þrátt fyrir að EES-samningurinn sé ekki með öllu yfir gagnrýni hafinn, fremur en önnur mannanna verk, held ég að niðurstaðan sé ótvírætt sú að kostirnir við aðild okkar að EES eru miklu fleiri en gallarnir. Það væri mikið óráð að stofna þessum samningi á nokkurn hátt í hættu, enda liggja ekki fyrir neinir sannfærandi valkostir. Hvorki ESB-aðild né uppsögn EES-samningsins fela í sér betri kosti fyrir okkur Íslendinga en það fyrirkomulag sem við höfum byggt upp á grundvelli EES-samningsins.

Þetta vildi ég segja í upphafi en þar sem hv. þingmenn hafa farið nánast einhliða lofsamlegum orðum um EES-samninginn í þessari umræðu er um leið rétt að hafa í huga að samningurinn er ekki til okkar kominn með einhverjum yfirnáttúrulegum hætti sem boðorð frá guði. Hann er mannanna verk og eins og önnur mannanna verk er ástæða til að ræða bæði kosti og galla og líka hugsanlega það sem við getum kallað áskoranir í sambandi við samningsfyrirkomulag af þessu tagi. Slíkar áskoranir eru vissulega fyrir hendi þegar að EES-samningnum kemur. Ég lít ekki svo á að það sé með nokkrum hætti verið að grafa undan EES-samningnum þó að slíkir þættir séu ræddir, sérstaklega ef það er gert á grundvelli röksemda og staðreynda en ekki á grundvelli einhverra draugasagna eða að verið sé að reyna að draga upp einhverja hryllingsmynd eins og örlaði á þegar við fórum í gegnum umræðuna um þriðja orkupakkann í vor. Málflutningur andstæðinga orkupakkans einkenndist mjög af einhverju sem ég get ekki annað en kallað draugasögur og hræðsluáróður sem átti sér enga stoð í þeim þingmálum sem voru undir í umræðunni.

Þegar við horfum á skýrsluna og kannski sérstaklega þær tillögur sem skýrsluhöfundar setja fram um breytt vinnubrögð af hálfu stjórnvalda, þá held ég að við eigum að hlusta. Það er ljóst og okkur hefur verið það ljóst um margra ára skeið að við gætum gert betur í sambandi við okkar aðkomu, bæði þingsins og eins stjórnvalda, að undirbúningi mála á vettvangi EES. Sú umræða er ekki ný af nálinni. Þess er skemmst að minnast að það hafa verið stigin ákveðin skref á undanförnum árum í þeim efnum. Í kjölfar skýrslu sem Björn Bjarnason leiddi 2007 voru gerðar ákveðnar tillögur og það var farið í ákveðnar breytingar á þinglegri meðferð EES-mála í framhaldinu til þess að auka aðkomu þingsins á fyrri stigum. Það sama gerðist raunar 2012, 2013 í kjölfar þingsályktunartillögu sem Einar K. Guðfinnsson flutti og fékk góðan stuðning, þvert á flokka, um bætta framkvæmd sem leiddi líka til bættra vinnubragða í sambandi við aðkomu þingsins að EES-málum. Nú síðast fyrr á þessu ári hefur utanríkismálanefnd enn haft til umfjöllunar breytingar sem eiga að tryggja bætta aðkomu þingsins. Þannig að ýmislegt hefur nú verið gert í þeim efnum. En ég er sammála skýrsluhöfundum um að hægt er að gera betur og ástæða til þess að bæði þingið og stjórnvöld setji þann kraft í vinnu mála á þessu sviði sem nauðsynlegur er til þess að gæta íslenskra hagsmuna og til þess að geta haft áhrif á fyrri stigum þegar möguleikar eru meiri á því stýra því í hvaða átt lagasetning eða undirbúningur lagasetningar stefnir, að þau tækifæri séu nýtt betur en verið hefur.

Það má velta fyrir sér hvort það gerist með því að það verði sett á fót einhver formleg stjórnstöð Evrópumála innan Stjórnarráðsins eða hvort það er hægt að nálgast það með einhverjum öðrum hætti. Ég er alveg á því að það sé þörf á að bæta samræmingu og verkefnastýringu milli ráðuneyta að þessu leyti en hvort við erum að tala um stjórnstöð, eins og skýrsluhöfundar tala um, með sérstöku starfsliði og þess háttar — ég hef alla vega ekki enn þá sannfæringu fyrir því að sú leið sé rétt. Það kann að vera að ég komi mér upp þeirri sannfæringu síðar. Ég er hins vegar sammála markmiðinu og dreg ekki í efa að það er mikilvægt að samræming að því leyti þurfi að aukast og batna.

Hið sama má segja um tillögu sem hefur verið orðuð í þessu samhengi, um að aðkoma þingsins verði styrkt með því að koma upp sérstökum tengslafulltrúa við Evrópuþingið. Ég veit ekki alveg hvort sú aðgerð sem slík sé endilega lausnin, að hafa einhvern einn útsendan starfsmann sem eigi að fylgjast með öllu sem gerist í Evrópuþinginu og miðla því til Alþingis Íslendinga. Kannski er ekkert að því að fara þá leið en ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það endilega muni hafa gríðarlegar breytingar í för með sér eða bæta upplýsingastreymi. Við skulum bara ræða það og fara yfir það. Á hinn bóginn held ég að það geti skipt máli að þingmenn almennt, hvort sem það er í gegnum einstakar þingnefndir eða í tengslum við þingflokka eða hópa hjá Evrópuþinginu, fylgist betur með því sem er að gerast og að það sé ástæða til að efla tengslin í því skyni svo að menn hafi jafnvel möguleika á því að koma einhverjum sjónarmiðum á framfæri þar ef málefni eru þess eðlis að þau varði hagsmuni Íslands. Ég held hins vegar að menn eigi að varast að fara í einhverjar einfaldar, sýnilegar aðgerðir eins og að smella fingri og ráða starfsmann sem hefur aðsetur í Brussel og halda að málið sé leyst þannig. Ég held að miklu meira þurfi að koma til til að menn raunverulega nái að hafa áhrif þar sem það skiptir máli.

Þetta vildi ég sagt hafa um skýrsluna. Áður en ég skil alveg við hana í þessari umræðu vildi ég nefna að skýrslan varpar ágætu ljósi á tvo þætti, getum við sagt, sem stundum hafa blandast inn í almennar umræður um Evrópumál hér. Annars vegar dregur hún ágætlega fram hver munurinn er á EES-aðild og ESB-aðild. Í opinberri umræðu verður þetta stundum svolítið óljóst í huga margra og vil ég í því sambandi nefna fullyrðingar sem fram hafa komið um það hversu hátt hlutfall t.d. íslenskrar löggjafar eigi sér rætur í Evrópulöggjöf. Það hlutfall er töluvert lægra en menn vilja oft meina í opinberri umræðu. Það er líka mikilvægt að það sé dregið fram að stórir hlutar af regluverki Evrópusambandsins koma ekki inn í EES-samstarfið. Þarna hafa menn alla vega ákveðinn grunn að byggja á þegar þeir fullyrða að við séum nú eiginlega alveg aðilar að ESB af því að við tökum upp svo mikið af reglunum þaðan og eins að það sé ekki slíkur munur á okkur og ESB þegar greint er hvaða svið falli utan gildissviðs EES-samningsins. Í skýrslunni má líka sjá að það er töluverður munur á stofnanauppbyggingu og innleiðingu löggjafar sem alla vega fyrir mitt leyti gerir að verkum að ég get stutt EES-samninginn en myndi ekki getað stutt ESB-aðild. Ég held að út frá fullveldi landsins og möguleikum okkar til að taka sjálf ákvarðanir í okkar málum sé hagsmuna okkar mun betur gætt með fyrirkomulagi EES-samningsins en með ESB-aðild. Lesi menn skýrsluna sjá þeir auðvitað að þarna er verulegur munur á. Þetta eiga auðvitað ekki að vera nýjar upplýsingar en það er hins vegar alltaf gagnlegt þegar svona er sett fram skýrt og skilmerkilega eins og ráða má af lestri þessarar skýrslu.

Skýrslan sem slík er mikilvægt innlegg. Við þurfum auðvitað að halda umræðum um nálgun okkar gagnvart EES-samningnum áfram. Við getum bætt okkur í sambandi við það hvernig við vinnum innan ramma EES-samningsins. Við þurfum að gæta þess að álíta svo sem ekkert sjálfgefið og öllum spurningum svarað fyrir fram. Við verðum að nálgast mál þegar við fáum þau til afgreiðslu hér í þinginu með gagnrýnu hugarfari en EES-samningurinn er engu að síður skynsamlegur og góður grunnur til að byggja okkar samstarf við Evrópuþjóðir á og meðan svo er og meðan ekki eru valkostir sem eru skynsamlegir á borðinu held ég að okkur sé best og skynsamlegast að vinna á þeim grundvelli og reyna að bæta stöðu okkar á grundvelli EES-samningsins en ekki að víkja frá honum.