150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:34]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ágæta og yfirvegaða yfirferð. Ég deili algjörlega þeirri sýn hans að EES-samstarfið sé mikilvægt og að við eigum að beita þeim ráðum sem við höfum, t.d. sem þingmenn í alþjóðastarfi, til að minna samstarfsaðila okkar á að við erum í EES-samstarfinu og það er mikilvægur samningur. Ég tek líka undir það að EES-samningurinn kemur náttúrlega ekki frá guði, eins og ég held að hv. þingmaður hafi talað um. Auðvitað á að ræða hann efnislega, eftir atvikum kosti og galla. Við hv. þingmaður erum alveg sammála um það. Það kemur skýrt fram, held ég, bæði í skýrslu utanríkisráðherra og skýrslunni um EES-samstarfið sem er hér í fögru bandi að EES-samningurinn hefur haft gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag og íslenskt þjóðlíf. Ég held að þau áhrif verði ekki mæld í fjölda þeirra reglna sem við höfum tekið upp í gegnum EES-samninginn frekar en að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu verði vegin og metin út frá hlutfalli reglna sem eru teknar upp heldur verðum við að horfa á hið efnislega innihald og þau áhrif sem þær reglur og það samstarf sem við göngumst undir hefur á íslenskt (Forseti hringir.) samfélag. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það sé giska fánýtt að vera að tala um hlutföll og fjölda reglna í þessu samhengi?