150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að fjalla aðeins nánar um þetta. Ég er alveg sammála því að talning á reglum eða hlutföllum í þessu sambandi er afar ófullkominn mælikvarði. Hún gefur auðvitað mjög takmarkaða mynd en þó einhverja og ég held að það þjóni kannski fyrst og fremst tilgangi að draga fram upplýsingar af þessu tagi til að átta sig á því að fullyrðingar um það að við séum 85% í Evrópusambandinu eða 75% — það fer eftir því hver viðmælandinn er hverju sinni hvað sagt er í því sambandi — eru dálítið langt frá veruleikanum þegar horft er á þennan mælikvarða. Auðvitað er þetta misjafnt eftir sviðum og á sviði verslunar og viðskipta og tengdum sviðum er um að ræða mjög samræmdar reglur, enda er það grundvöllur EES-samstarfsins. Til þess var leikurinn gerður að samræma reglur á því sviði þannig að áhrifin eru mjög mikil á ákveðnum sviðum en miklu minni á öðrum sviðum. Við hv. þingmaður getum verið sammála um að tal af þessu tagi, hvort sem það er verið að telja fjölda reglugerða sem við höfum innleitt miðað við þær reglugerðir sem settar eru í Evrópusambandinu eða horft til annarra gerða, eða hversu hátt hlutfall nýrra laga á Íslandi á beina rót í EES-reglum, er ófullkominn mælikvarði. En það er þó einhver mælikvarði. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að niðurstaðan, hvernig sem við skoðum þetta, er sú að á vissum sviðum felur EES-samningurinn í sér mikla samræmingu en á öðrum sviðum miklu minni samræmingu. Þó að við séum ósammála um aðild að Evrópusambandinu erum við væntanlega sammála um (Forseti hringir.) að það er verulegur munur á EES-samstarfinu og ESB-aðild.