150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég er algerlega sammála honum um að það er mikill munur á því að vera aðili að Evrópusambandinu og aðili að EES-samningnum. Um það er hægt að halda langt mál sem ég ætla í sjálfu sér ekki að gera hér.

Það sem ég vildi kannski fyrst og fremst með andsvörum mínum vekja athygli á er að nú höfum við staðið í pontu, a.m.k. allir hingað til, og lýst því hversu gríðarleg áhrif EES-samningurinn hafi haft á íslenskt samfélag og flest allt til bóta, þótt sumir séu ekki alveg sammála um það. En ef ég man rétt kemur fram í ágætri skýrslu, ég held að það hafi verið í skýrslu utanríkisráðherra, að það megi rekja um 13% af íslenskri löggjöf beint til EES-samningsins. Ef við lítum á þessa mælikvarða myndi einhver vilja segja: Að vera í EES hefur sáralítil áhrif á Íslandi af því að það hefur bara áhrif á 13% af þeim lögum sem Alþingi setur þannig að þetta skiptir faktískt engu máli. En staðreyndin er sú og við tölum um það öll að þetta skiptir gríðarlega miklu máli og ég held að það skipti meira en 13%-máli. Er hv. þingmaður sammála mér um það?