Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[16:44]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um EES-samstarfið sem ákveðið var á síðasta ári að yrði rætt reglubundið í þingsal einu sinni á ári. Því ber að fagna að við séum loksins komin á þann stað þegar 25 ár eru liðin frá því að EES-samningurinn tók gildi að samstarfið og samningurinn sé rætt hér reglulega. Mun það án efa gera samningnum, EES-samstarfinu og íslenskri löggjöf sem byggist á samningnum hærra undir höfði og skýra enn fremur hvaða hluta íslenskrar löggjafar er hægt að rekja beint til samningsins og hver áhrif hans eru á íslenskt samfélag. Ég vil hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir samantektina og skýrsluna um framkvæmd EES-samningsins sem er í raun samantekt á ítarlegri skýrslu starfshóps sem hæstv. ráðherra kom á fót um EES-samstarfið. Þessi reglubundna skýrslugjöf til Alþingis er afrakstur endurskoðunar á síðasta ári á reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála og í 9. gr. þeirra er einmitt kveðið á um reglubundna skýrslugjöf til þingsins. Það er vel enda þurfum við að eiga reglulegar umræður um EES-samninginn, kosti hans og galla og ekki síst áherslumál hverrar ríkisstjórnar fyrir sig í EES-samstarfinu.

Umræður í þingsal eru þó ekki nóg. Samráð við Alþingi verður að vera þétt og reglulegt. Það hefur vissulega aukist verulega á undanförnum árum, sem og upplýsingagjöf, enda var þinglegu samráði komið í fastari skorður við endurskoðun reglna um þinglega meðferð EES-mála árið 2010. Við þá endurskoðun fær utanríkismálanefnd Alþingis sendar allar gerðir sem fyrirhugað er að taka upp í EES-samninginn og kalla á lagabreytingar. Við endurskoðun reglnanna á nýjan leik á síðasta ári var kveðið á um að ráðherra skuli eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti kynna fyrir utanríkismálanefnd þau mál sem efst eru á baugi innan ESB og varða EES-samstarfið. Þetta gerði hæstv. utanríkisráðherra á síðasta ári en við bíðum enn í hv. utanríkismálanefnd eftir kynningunni á forgangsmálum EES-samnings þessa þingvetrar og hvet ég hæstv. ráðherra til að koma hið fyrsta til okkar í hv. utanríkismálanefnd með þessa kynningu þar sem sérstaklega er kveðið á um þetta. Ég efast ekki um hans góða vilja til að eiga þessa kynningu með okkur í nefndinni.

Í endurskoðuðum reglum Alþingis um að áhersla skuli lögð á virka þátttöku þingsins í undirbúningi og mótun ESB-gerða er líka kveðið á um að leitast skuli við að tryggja hagsmuni Íslands eins framarlega í lagasetningarferli ESB og unnt er. Þessar áherslur, eins og áður hefur verið sagt í þingsal í dag, á virka hagsmunagæslu Íslands eins framarlega í lagasetningarferli ESB og hægt er, eru alls ekki nýjar af nálinni. Fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson heitinn, lagði einmitt áherslu á virka hagsmunagæslu 1995 þegar hann tók við sem utanríkisráðherra ári eftir fullgildingu samningsins hér. Þingmenn hafa líka lagt mikla áherslu á virka hagsmunagæslu í þingsal og í þingstörfum sínum þannig að ég legg áherslu á virkt samráð hæstv. utanríkisráðherra við utanríkismálanefnd um þau mál í lagasetningarferlinu, eins og ég sagði áðan, sem ríkisstjórnin metur sem forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum. Ég hvet líka fagráðuneyti ríkisstjórnarinnar til að fjölga fulltrúum sínum í Brussel þar sem yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar er að stefna að því að fjölga fulltrúum ráðuneyta til þess einmitt að gera þeim kleift að leggja meiri áherslu á greiningar ESB-gerða í lagasetningarferlinu og þar með koma slíkri greiningu á framfæri við utanríkismálanefnd og sömuleiðis í þinginu. Þarna hvet ég eindregið ráðherra ríkisstjórnarinnar til að standa við yfirlýst markmið um þetta. Ef alvara er í því að gæta að hagsmunum Íslands verða einfaldlega öll ráðuneytin að senda sína fulltrúa til Brussel og ekki bara ráðuneytin heldur þarf íslenskt atvinnulíf sömuleiðis að senda öfluga fulltrúa.

Mig langar að víkja að mikilvægi EES-samningsins sem er ótvírætt og mikið. Hann er einn mikilvægasti alþjóðasamningur sem Ísland hefur gert enda hefur hann gert Íslendingum kleift að starfa nánast hindrunarlaust á 500 milljóna manna innri markaði aðildarríkja samningsins. Mig langar sérstaklega að nefna hér og leggja áherslu á það að í krafti aðildar okkar að þessum samningi er lagður einstakur grundvöllur að samstarfi við Evrópusambandið, ekki aðeins á sviði viðskipta og í fjármálageiranum, þau mál taka að mínu viti oft og tíðum of mikið pláss en það var kannski ekki heldur skrýtið á árunum eftir efnahagshrunið, heldur sérstaklega á sviði umhverfismála, rannsókna, menntunar, neytendaverndar og menningar. Hefur aðildin að samningnum stuðlað að gríðarlega mikilvægum umbótum á íslenskri löggjöf á þessum sviðum. Vegna aðildar að samningnum er íslenskum fræði- og vísindamönnum gefið tækifæri til einstaks mennta- og vísindasamstarfs við aðila innan svæðisins þar sem Íslendingar eiga kost á því að starfa og læra.

Þetta má sjá skýrt á bls. 26 í skýrslu utanríkisráðherra þar sem segir m.a. að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi látið gera úttekt á þátttöku Íslands í sjöttu og sjöundu samstarfsáætlun ESB um rannsóknir og þróun á árunum 2003–2011. Niðurstöðurnar voru að þátttakan hefði markað kaflaskipti í rannsóknum og þróun á Íslandi. Það var einróma álit einstaklinga innan háskólasamfélagsins, stjórnsýslunnar og atvinnulífsins að þátttakan hefði leitt til stóraukins alþjóðlegs samstarfs á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og opnað íslenskum vísindamönnum aðgang að þekkingu og aðstöðu sem ekki var fyrir hendi hér á landi og skilað sér í auknum gæðum rannsókna, nýsköpun hjá fyrirtækjum og bættri samkeppnishæfni. Þetta er ekki lítið fyrir 340.000 manna þjóð og fyrir komandi kynslóðir hér á landi og ekki síst á tímum vaxandi einangrunarhyggju og sífellt neikvæðari afstöðu til alþjóðasamstarfs í heiminum í dag.

Mig langar til að víkja máli mínu að skýrslu starfshóps um EES-samstarfið sem skilaði af sér góðri skýrslu sem unnin var á einu ári. Skýrslan er stórgott yfirlit og prýðisgóð samantekt um EES-samninginn, sögulega þróun hans, hlut Íslands í EES-samningnum og hindranir, sérálit, kosti og galla. Á bls. 21 í skýrslu starfshópsins eru dregnir fram 15 svokallaðir úrbótapunktar sem eru sumir hverjir mjög gott leiðarstef til að halda umræðunni um EES-samninginn sem mestri en ekki síður virkni hans sem bestri.

Helstu tíðindi skýrslunnar sem hér liggur fyrir eru þær niðurstöður er varða stjórnarskrána og stjórnskipulegt gildi innleiðinga. Inn á það er komið í úrbótapunkti nr. 2 þar sem segir að binda verði enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi áunnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána. Þetta eru að mínu viti helstu tíðindi skýrslu starfshópsins. Það er skýr skoðun formanns stýrihópsins að skráning ákvæða um aðildina í stjórnarskrá eigi ekki við. Þetta hefur hann tjáð sig um og er nokkuð sem býður upp á frekari umræður, bæði í þinginu og annars staðar í samfélaginu, enda hafa 18 opinber lögfræðiálit um þetta verið gerð og birt þannig að við erum með nægan efnivið til að ræða þetta.

Mig langar líka að tæpa á nokkrum öðrum úrbótapunktum. Í punkti nr. 9 er talað um að skýrslur á vegum Alþingis og ríkisstjórna sýni að oft hafi verið lagt á ráðin um hvernig best yrði staðið að framkvæmd EES-samstarfsins og að taka beri af skarið um ábyrgð á EES-málum innan stjórnkerfisins með forsetaúrskurði um skiptingu starfa milli ráðherra. Þetta tel ég góða tillögu sem skýri og skerpi betur ábyrgð á þeim hliðum EES-samningsins sem við erum að innleiða í okkar löggjöf.

Í 10. punkti er fjallað um að leggja beri grunn að meiri festu í allri stjórn og meðferð EES-mála á heimavelli og að komið verði á fót stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar með föstu starfsliði sem fylgist viðvarandi með öllu er varðar málaflokkinn á mótunar- og framkvæmdastigi. Þetta hafa nokkrir hv. þingmenn rætt hér í umræðunni í dag. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurði hæstv. utanríkisráðherra um þetta atriði. Hæstv. ráðherra tók vel í þá hugmynd sem fram kemur í úrbótapunkti nr. 10 og var jákvæður í garð þess að koma á fót svokallaðri stjórnsýslu. Að mínu viti er þetta góð hugmynd og mun gera okkur einbeittari í framkvæmdinni á EES-samningnum.

Síðan er það úrbótapunktur nr. 11 þar sem er talað um að forgangslista ríkisstjórnarinnar um helstu EES-mál sem sinna ber hverju sinni verði fylgt eftir á markvissan hátt, reynslan sýni að með málefnalegri eftirfylgni nái EES/EFTA-ríkin verulegum árangri í þágu hagsmuna sinna. Þetta er líka rauði þráðurinn sem hefur birst í umræðunum í dag um virka hagsmunagæslu okkar, um að skerpa á forgangslistanum, og fjallar í raun um að við séum virkir aðilar að EES-samningnum en ekki viðtakendur.

Síðan er það úrbótapunktur nr. 12 sem fjallar um að móta þurfi mannauðsstefnu sem snúi að opinberri þátttöku í EES-samstarfinu og að gefa verði þeim sem því starfi sinna færi á að afla sér sérhæfðrar þekkingar með leyfi til rannsókna við erlenda háskóla og fræða- eða rannsóknarstofnanir. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt atriði sem ýtir undir þekkingarmiðlun, kennslu og rannsóknir yfir landamæri sem er alltaf gott.

Höggvið er í sama knérunn í úrbótapunkti nr. 13 þar sem talað er um að stuðla beri að meiri rannsóknarstarfsemi á EES-málum og á fleiri fræðasviðum en lögfræðilegum. Ég held að þarna sé líka um að ræða afskaplega góða tillögu um það hvernig við getum aukið vægi samningsins í íslensku samfélagi þannig að við fáum skarpari mynd af því hver áhrif samningsins eru nákvæmlega.

Að lokum vil ég draga fram í minni ræðu umhverfismálin sem koma lóðrétt inn í okkar löggjöf í gegnum aðild okkar að EES-samningnum. Það eru ótal umbætur á þeim vettvangi sem hafa komið inn í íslenska löggjöf frá þeim tíma sem Ísland varð aðili að EES-samningnum. Eins og fram kemur á bls. 160 í skýrslu starfshópsins setja loftslagsmálin sífellt meiri svip á EES-samstarfið samhliða umhverfisvernd. Síðari ár hefur samstarf EES-þjóðanna í umhverfismálum stóraukist, sérstaklega loftslagsmálum. Dæmi um þetta má sjá bara á þingmálaskrá hæstv. umhverfisráðherra fyrir þetta þing en fimm þingmál er varða umhverfis- og loftslagsmál sem koma munu inn í þingið í vetur eru annaðhvort innleiðingar eða tilskipanir í gegnum EES-samninginn. Alls hafa 658 gerðir er varða umhverfismál verið teknar upp í íslenska löggjöf gegnum EES-samninginn sem sýnir okkur mikilvægi hans í þessum málaflokki.

Síðari ár hefur samstarf EES-þjóðanna í umhverfismálum og sérstaklega loftslagsmálum stóraukist og stjórnvöld á Íslandi og í Noregi standa að sameiginlegu markmiði með ESB-ríkjunum gagnvart Parísarsamkomulaginu. Nú er rætt um það hvernig innleiða skuli reglugerðir um sameiginlega markmiðið inn í EES-samninginn og þeim viðræðum lýkur vonandi í lok árs 2019. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að umhverfis- og loftslagsmál verði að vera stöðugt umfangsmeiri og mikilvægari í tengslum við EES-samninginn. Slíkum málum mun og á að fjölga hratt í allra nánustu framtíð. Vonandi verður þar mikil fjölgun á og vonandi heldur EES-samningurinn áfram að gera okkur Íslendingum kleift að gerast aðilar að sameiginlegri stefnumótun ESB á sviði umhverfismála. Regluverk ESB á sviði umhverfismála er að mestu leyti innleitt hér á landi. Aðild Íslands að EES-samningnum hefur stuðlað að umhverfisvernd hér á landi, eins og segir í skýrslu starfshópsins. Dæmi því til staðfestingar má nefna að markvissar reglur um mengunarvarnir, sorphirðu og mat á umhverfisáhrifum hafa verið settar og upplýsingagjöf til almennings um umhverfismál og vöktun margra þátta á sviði umhverfismála hefur verið bætt. Önnur dæmi um þetta eru að EES-reglur leggja skyldur á herðar sveitarfélögum á sviði umhverfismála. Umhverfisstofnun Íslands tekur þátt í starfi Umhverfisstofnunar Evrópu og svona mætti lengi telja um jákvæðar hliðar og afleiðingar EES-samningsins í því er varðar loftslags- og umhverfismál. Þetta er, ásamt áherslu á þær framfarir sem íslenskt samfélag hefur tekið í menntun, menningu, rannsóknum og vísindum, að mínu viti allra mesti og besti mælikvarðinn á það hvort EES-samningurinn hafi haft góð áhrif á íslenskt samfélag eða ekki. Það er vonandi að svo verði áfram og þar skiptir mestu að Ísland hverfi af þeirri braut að fá sérstakar undanþágur eða ívilnanir sem við höfum allt of oft verið að taka upp og leggja áherslu á í innleiðingum gerða í umhverfis- og loftslagsmálum.

Þess vegna tel ég, herra forseti, að við þurfum að nýta þetta mikla tækifæri sem aðild að EES-samningnum er fyrir íslenskt samfélag, að við séum virkir aðilar, ekki viðtakendur. Fullvalda ríki ber að vera virkt og við eigum að skerpa okkar áherslur (Forseti hringir.) í þessu gríðarlega mikilvæga samstarfi sem hefur sýnt sig ótvírætt að er mikill ávinningur fyrir Ísland.