Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hún hefur áttað sig á því að ég er ekki alltaf alveg 100% ánægð þegar kemur að loftslagsmálunum, hef verið gagnrýnin á það sem við höfum verið að gera og einmitt krafist þess að við göngum hraðar fram í þeim. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns um að það var gott að við ákváðum þó þessa leið, að við myndum halda okkur við ESB-markmiðin. Eins og ég minntist á í ræðu minni munum við vonandi klára þær samningaviðræður sem fyrst þannig að þær dragist ekki enn frekar á langinn og við munum sjá afrakstur þeirra fyrir lok árs 2019.

Eins og ég minntist líka á í ræðu minni höfum við mikið reynt að fá undanþágur frá ákveðnum þáttum þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Ég held að við eigum frekar að fara að hætta því og minnka þær undanþágur og taka þátt af öllu hjarta. Þó að sumt eigi kannski ekki við á Íslandi eigum við ekki að vera með þetta meginstef íslenskrar utanríkisstefnu í áratugi, að vera alltaf með séríslenska lausn eða séríslenskar undanþágur í utanríkismálum. Loftslagsmálin eru orðin það stórt utanríkismál að við þurfum að haldast í hendur við þau lönd sem fremst eru í flokki í loftslags- og umhverfismálum. Þar held ég að það sé góðs viti að við bindum enn frekari innleiðingar í EES-samstarfið og að við séum aldrei eftirbátar ESB í loftslagsmálum.