150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við sérstaka skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins í fyrsta sinn á Alþingi samkvæmt nýju verklagi þar um. Auk þess ræðum við um skýrslu starfshóps um EES-samstarfið frá því í september 2019. Ég vil þakka fyrir þessar skýrslur eins og fleiri hafa gert og tel þær mjög mikilvægan grunn fyrir upplýsta umræðu um framkvæmd og þýðingu samningsins fyrir Ísland. Auk þess er mikilvægt að muna eftir eldri skýrslum um samninginn og upplýsingaveitunni ees.is sem opnuð var í mars sl. Það er við hæfi að þessi umræða fari hér fram í fyrsta sinn með þessum hætti eftir aldarfjórðungs reynslu af samstarfinu. Ávinningur Íslands af samstarfinu og EES-samningnum er dreginn skýrt fram í skýrslunum sem liggja til grundvallar þessari umræðu. Samningurinn er tvímælalaust mikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga. Hann er líka réttindasamningur um réttindi einstaklinga og fyrirtækja auk þess sem samningurinn rammar inn fjölþætt samstarf um menningu, menntun og vísindi. Eins og ýmsir þingmenn hafa komið inn á í umræðunni hafa þessir rammar tryggt okkur aðgang að tækifærum til nýsköpunar og markaðssetningar og mun fjölbreyttari menntunartækifæri en annars gæfust.

Sú sem hér stendur er fulltrúi flokks, Framsóknarflokksins, sem telur hagsmunum Íslendinga best borgið utan Evrópusambandsins en leggur ríka áherslu á gott samstarf við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins. EES-samstarfið og fjórfrelsið sem því fylgir á drjúgan þátt í þeirri hagsæld sem við búum við á Íslandi í dag. Hagsældin byggist að miklu leyti á því að við höfum aðgang að innri markaði Evrópu á jafningjagrundvelli. Samningurinn hefur líka fært okkur mikilvægar umbætur á lagaumhverfinu og samkeppnisumhverfi sem skiptir atvinnulífið og neytendur máli. Í dag lítum við á margt sem sjálfsagðan hlut sem var það ekki fyrir 25 árum. Þetta eru ýmsir kostir sem samstarfið og samningurinn hafa fært okkur eins og Evrópska sjúkrakortið, Erasmus-samstarfið sem hefur áhrif á stöðugt fleiri og fleiri nemendur og starfsmenn í íslensku menntakerfi, Horizon 2020-samstarfið og fleira mætti nefna. Ég tel að það væri fásinna að kasta þessum ávinningi fyrir róða. Við þrífumst á utanríkisverslun og þurfum að hafa greiðan aðgang að erlendum mörkuðum auk þess sem virkt samstarf og samvinna á sviði menningar, mennta og vísinda eiga stöðugt þátt í nýsköpun og vaxandi verðmætasköpun í samfélaginu. Ég tel hins vegar fullt tilefni til að skoða hvernig við nálgumst samstarfið og tel það raunar hafa verið og verða áfram viðvarandi verkefni íslenskra stjórnmála. Það eru auðvitað ýmsar áskoranir í samstarfi eins og þessu. Ein er auðvitað sú að í jafn umfangsmiklu samstarfi er ekki alltaf gagnsæi í því hvernig endanleg niðurstaða er fengin. Það er viðvarandi verkefni að fylgjast með áskorunum og greina hvað raunverulega skipti máli.

Lykilatriðið er að í þessu samstarfi eins og öðru erum við, Íslendingar okkar eigin gæfu smiðir. Þótt ávinningur okkar af samningnum síðastliðinn aldarfjórðung sé mikill og ótvíræður hefur reynslan kennt okkur að við getum bætt framkvæmdina og við höfum nú nýlega stigið mikilvæg skref í því sambandi, eins og fram hefur komið hér í umræðunni. Við þurfum að gæta þess tímanlega að sækja um undanþágur og aðlögun að þeim ákvæðum sem við teljum að eigi ekki erindi við okkur. Okkur ber skylda til að gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Horfum fram á við. Við þurfum að nýta krafta okkar til að skerpa á því hvar hagsmunir okkar liggja og greina EES-gerðir á mótunarstigi með tilliti til okkar hagsmuna. Þannig verðum við áfram okkar gæfu smiðir. Á sama hátt þurfum við þegar að innleiðingu og upptöku EES-gerða kemur að vinna betri greiningar á áhrifum þeirra og samfélagsþróun á Íslandi og nýta öll tækifæri til mæta fjölbreyttum hagsmunum við innleiðinguna. Þannig tryggjum við áframhaldandi þróun íslensks samfélags til aukinnar sjálfbærni og verðmætasköpunar.

Aðkoma Alþingis í þessum efnum er mikilvæg og því fagna ég nýlegri styrkingu á henni þar sem áhersla er lögð á virka þátttöku í undirbúningi og mótun EES-gerða og að leitast skuli við að tryggja hagsmuni Íslands eins framarlega í lagasetningarferli ESB og unnt er. Aukið samráð utanríkisráðherra við þingið, bætt hagsmunagæsla í Brussel og betri greining EES-gerða, m.a. með fjölgun fulltrúa fagráðuneyta í Brussel, eru allt mjög mikilvæg skref. EES-samstarfið er mikilvægt. Við eigum að nýta öll tækifæri sem í því felast, greina stöðu, tækifæri og áskoranir og aldrei að nota samninginn sem afsökun fyrir mistökum hjá framkvæmdarvaldinu eða í lagasetningu hér á landi.