150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:25]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á þessu með bananana og agúrkurnar. Ég vona að hæstv. forseti áminni mig fyrir að bera fjarstaddan mann sökum vegna þess að ég hef fyrir satt að sá blaðamaður sem bjó til þessar tröllasögur frá Brussel hafi verið enginn annar en hæstv. forsætisráðherra Bretlands um þessar mundir, Boris Johnson. Hann uppskar eins og hann sáði.

Hæstv. ráðherra spyr hvernig ég sjái fyrir mér Evrópusambandið og aðild Íslendinga að því. Ég reyndi að útskýra það í þeim kafla ræðu minnar sem ég þurfti að skauta yfir sökum tímaskorts. Ég sé Evrópusambandið fyrir mér sem nokkurs konar net. Það er net fullvalda þjóða sem hver um sig framselur hluta af valdi sínu til sameiginlegrar stjórnar og sameiginlegs þings sem er kosið af viðkomandi þjóðum. Síðan ræður þetta net fram úr ýmsum málum. Sambandsríki er orð sem ég myndi ekki nota í þessu sambandi og ég hygg að nú sé nokkurt vatn runnið til sjávar síðan þær hugmyndir voru mest áberandi meðal forsvarsmanna Evrópusambandsins að gera nokkurs konar ríki úr því, svona eins og Bandaríki Norður-Ameríku eru, og ég held að sú stefna hafi nokkuð hopað og að flestir séu á því að þetta sé laustengt bandalag.