150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram í agúrkureglugerðinni. Hún var til, það liggur alveg fyrir. Það liggur líka fyrir að Boris Johnson var eitt sinn blaðamaður í Brussel. Hvort hann geti eignað sér það að hafa upplýst um þetta veit ég ekki en það liggur alveg fyrir að agúrkureglugerðin um að þær næðu ekki skilgreiningu sem agúrkur nema þær væru réttar í laginu o.s.frv. var til. Það er ekki eina skrýtna reglugerðin sem hefur komið frá Evrópusambandinu.

Ástæðan fyrir því að ég spyr ítrekað er sú að það er ekkert leyndarmál að t.d. bæði flokkagrúppan Sósíaldemókratarnir og sömuleiðis EPP sem eru langstærstu flokkagrúppurnar hægra megin við miðju, og svo sannarlega þeir sem eru í framkvæmdastjórninni, að ég tali ekki um embættismenn — ég hef aldrei hitt embættismann frá Evrópusambandinu sem öðruvísi er farið með og hef þó hitt nokkur bretti af þeim síðustu áratugi og það er ekkert breytt — vilja fá sambandsríki Evrópu. Það er alveg kýrskýrt, það liggur alveg fyrir að það er markmiðið. Rökin eru að það verði að vera mótvægi við önnur stórveldi og ýmislegt annað. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það hefur ekki gengið mjög vel að koma því áleiðis, a.m.k. ekki meðal almennings, en m.a. er tortryggni vegna þess að mönnum finnst þeir sem stýra og ráða ekki hlusta á almenning heldur fara sínu fram og ætla sér að komast áfram með þetta, sama hvað verður. Við getum farið í það eins og þegar menn reyndu að koma stjórnarskránni í gegn og það var fellt og þá var gagnrýnt að menn hefðu farið aðrar leiðir að sama marki en ekki hlustað á fólkið hjá viðkomandi þjóðum. Ef þær fella viðkomandi sáttmála er reynt að koma þeim inn með einhverjum öðrum hætti. En þetta er alveg skýrt. Gæti hv. þingmaður verið aðeins skýrari? Styður hann það, vill hann fá sambandsríki Evrópu eins og forystumenn Evrópu (Forseti hringir.) og stærstu flokkagrúppurnar, þar á meðal Sósíaldemókratar, berjast fyrir?