150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst að ég þurfi helst að finna einhvern ávöxt eða grænmeti sem asnaleg reglugerð er til um til að taka þátt í þessari skemmtilegu umræðu en ég ætla að byrja á því að þakka fyrir skýrsluna. Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið er gríðarlega góð og mikilvæg inn í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað í íslensku samfélagi og hefði kannski átt að eiga sér stað örlítið fyrr. Ég er ein af þeim sem aðhyllast ekki inngöngu Íslands í Evrópusambandið en ég er algjörlega sannfærð um að þessi samningur er okkur gríðarlega mikilvægur. Ég var reyndar þátttakandi í skýrslubeiðninni upphaflega þar sem kallað var eftir þessari skýrslu sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson var 1. flutningsmaður að. Ég gerði það á þeim forsendum að mér fannst mikilvægt að við fengjum svona skýrslu fram í þinginu og að við myndum ræða kosti og galla EES-samningsins.

Í niðurstöðuorðum skýrslu utanríkisráðherra um skýrslu starfshópsins segir:

„Starfshópurinn telur að við aðildina að EES hafi íslenskt þjóðfélag tekið stakkaskiptum og ítarlegur samanburður á því sem var og væri nú hefði kallað á mun víðtækari úttekt á þróun íslensks samfélags en starfshópurinn hefði haft tök á eða tíma til að gera. Þá er gerð grein fyrir því að allir viðmælendur starfshópsins, aðrir en fulltrúar samtakanna Frjálst land hér á landi og Nei til EU í Noregi, hafi talið EES-samninginn lifa góðu lífi og vera til gagns og ávinnings fyrir þá sem innan ramma hans starfa.“

Ég get mjög vel skilið þá gagnrýni sem ég hef heyrt um, að skýrslan taki ekki á þeirri spurningu hvað hefði orðið ef við hefðum ekki tekið þátt í EES-samstarfinu. Ég tek undir að það hljóti að vera býsna erfitt. Frá því að ég kom inn á þing og í öllum þeim samskiptum sem ég hef átt í, hvort sem er í atvinnulífinu eða fræðasamfélaginu, við embættismenn eða stjórnmálamenn, finnst mér hafa verið mikill samhugur um það hversu mikilvægur samningurinn er fyrir okkur og hvað hann hefur gert okkur mikið gagn. Ég heyri fólk í atvinnulífinu segja það algjörlega óhikað að það líti á EES-samninginn sem ákveðna líflínu. Ég held samt að ýmislegt megi betur fara í framkvæmd samningsins eins og kemur einmitt fram í skýrslunni. Hæstv. utanríkisráðherra hefur reyndar líka fjallað ítrekað um það í skýrslum sínum og máli, þ.e. að við getum og eigum að bæta hagsmunagæslu okkar í Brussel. Það hefur líka komið oft til tals að það sé ekki bara framkvæmdarvaldið sem eigi að huga enn frekar að hagsmunagæslunni heldur ætti þingið að gera það líka, jafnvel þyrfti starfsmann þingsins úti í Brussel.

Ég hafði svolitlar áhyggjur af því þegar ég fór fyrst að kynna mér málið hvað öll þessi hagsmunagæsla okkar ætti að kosta og mér finnst mjög áhugavert að velta upp í því samhengi hvort einhver annar möguleiki sé í stöðunni. Ég held nefnilega að svo sé ekki. Mér fannst áhugavert þegar ég fór að skoða það að í raun skiptir ekki máli hvort maður sé aðili að ESB eða, eins og við, aðili að EES-samningnum. Jafnvel þó að við værum það ekki held ég að við þyrftum alltaf að gæta hagsmuna okkar í Brussel. Við sjáum að ESB-ríkin sjálf eru með gríðarlega mikla viðveru og hagsmunagæslu í Brussel, einmitt til þess að koma að málunum á fyrsta stigi. Ég get tekið undir að það koma oft alveg ótrúlegustu hlutir út úr vinnu embættismanna í Brussel sem ég held heilt yfir að sé gott og þá er gott til þess að vita hvað öll sú vinna er opin og gegnsæ.

Ég hafði tækifæri í upphafi ársins til að dvelja í næstum tvær vikur í Brussel og Strassborg og kynna mér innviði Evrópusambandsins. Ég hitti þar marga embættismenn og þingmenn og fékk frekari fræðslu um það hvernig þetta virkar allt saman. Ég heimsótti líka ráðuneytið okkar í Brussel og ræddi þar við starfsmenn og fulltrúa mismunandi ráðuneyta og þau ítrekuðu einmitt hvað það væri auðvelt og ekkert vandamál í því fólgið ef Ísland hefur áhuga, ef Ísland hefur eitthvað fram að færa, ef við höfum sérfræðinga á hverju sviði, að þeir aðilar taki þátt í vinnu sérfræðingahópa sem er yfirleitt fyrsta skrefið að komandi löggjöf. Við eigum að sjálfsögðu að nota okkur það og höfum gert það en við þurfum að forgangsraða og horfa á þau mál sem við viljum leggja sérstaka áherslu á.

Það er mikilvægt að muna líka að þó að þetta sé risastór fríverslunarsamningur er hann miklu meira en það, til að mynda það sem við fáum út úr rannsókna- og vísindasjóðum. Það er bæði áhugavert og ánægjulegt að fylgjast með því hversu vel íslenskum aðilum hefur gengið í að sækja um í þá sjóði. Ef við viljum fara út í krónur og aura er hægt að reikna okkur það til tekna sem íslenskar rannsóknastofnanir og háskólar fá út úr rannsóknarrammaáætlunum. Við höfum nýtt okkur Erasmus-styrki mikið, sjúkrakortið hefur verið nefnt hér og fleira mætti telja upp.

Þá ætla ég að koma inn á það sem ég held að sé svo mikilvægt, þ.e. að við höfum þessa skýrslu og að umræða um samninginn eigi sér stað í samfélaginu. Ég tek undir það sem einhverjir hv. þingmenn sögðu á undan mér, við höfum kannski svolítið misst boltann í því að tala um gildi samningsins, að svo mikið sé falið í samningnum sem samfélagið og íslenskir þegnar líta á sem sjálfsagðan hlut og átta sig ekki endilega á að séu réttindi og ákveðin gæði sem komin eru til vegna þess að við erum með þennan samning. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að halda því á lofti. Nýleg umræða um t.d. orkupakkann hefur gefið okkur tækifæri til að ræða um kosti EES-samstarfsins og það sem íslenskir ríkisborgarar fá út úr EES-samstarfinu á hverjum einasta degi.

Það eru þó ekki bara kostir, það eru líka ákveðnir gallar og þá umræðu þarf líka að taka. Ég sagði t.d. blákalt í mínum samtölum við aðila í Brussel að það væri tvennt sem við þyrftum að vinna sérstaklega með. Annars vegar þyrftu íslensk stjórnvöld að standa sig betur í því að tala samninginn upp, tala um gildi hans og hvað við fáum út úr honum, og hins vegar þyrftum við að krefja Evrópusambandið um að virða samninginn, virða tveggja stoða lausnina. Það er óásættanlegt hversu langan tíma það hefur tekið að finna tveggja stoða lausnir í nýju regluverki sem hefur komið fram. Ég verð að viðurkenna líka að ég var stundum svolítið móðguð því að þeir tala ekkert endilega um EES-samninginn sem slíkan. Þeir tala um, með leyfi forseta, „the Norwegian way“, norsku leiðina, þeir eru ekkert að vísa sérstaklega í Íslendinga í þeim efnum, þeir tala um norsku leiðina sem særði auðvitað íslenska sjálfstæðishjartað örlítið.

Á síðustu mínútunum langar mig að koma inn á ábyrgðina. Ég held að samningurinn hafi goldið svolítið fyrir það að íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki verið nógu duglegir að taka ábyrgð á störfum sínum á síðustu árum. Ábyrgðinni er of oft kastað á EES-samninginn. Það kom vel fram þegar við áttum skemmtilegt samtal í hv. utanríkismálanefnd þegar skýrsluhöfundar komu til okkar að þingmenn hafa verið að afgreiða lög án þess að vera fullkomlega meðvitaðir um hvað Evrópulöggjöfin gerði kröfu um. Embættismenn í ráðuneytunum hafa stundum fallið í þá gryfju að reyna að koma meiru inn í löggjöfina en er nákvæmlega tilgreint í Evrópureglunum. Þarna á milli þurfum við að greina mjög vel. Ég held að nýjasta verklagið okkar geri það að verkum að þegar lesnar eru greinargerðir á að vera öllum ljóst og alveg skýrt hvað Evrópureglan fer fram á, hvar við göngum lengra og hvernig við nýtum okkur þær heimildir sem þar koma fram. Svo þurfum við sem sitjum í þessum sal, erum á takkanum og greiðum atkvæði að bera ábyrgð á okkar gerðum. Ég hygg að of oft hafi ábyrgðinni verið kastað yfir á eitthvert stórt apparat í Brussel.

Ég fagna skýrslunni. Mér finnst úrbótapunktarnir af hinu góða og ég veit að ráðuneytið er farið að skoða það og ég hvet líka ráðuneytið til að vera í góðu samstarfi við utanríkismálanefnd. Umræðan hér og umræðan innan nefndarinnar á að verða til þess (Forseti hringir.) að við getum valið úr hvað okkur hentar og hvernig við ætlum að vinna með þá úrbótapunkta sem hér eru.