150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:41]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða skýrslu um EES-samninginn og yfirferð yfir skýrslu starfshóps um EES-samstarfið. Eins og kemur fram í skýrslunni kann að vera að við séum farin að taka þeim réttindum og ávinningi sem samningurinn færir okkur sem sjálfsögðum hlut og gerum okkur ekki grein fyrir því að það tengist þessum ágæta samningi. Bætt vinnulag hvað varðar samráð við Alþingi er til bóta og sú upplýsingagjöf sem utanríkisráðherra og öðrum ráðherrum er eftir atvikum ætlað að hafa til utanríkismálanefndar er varðar þær gerðir sem fyrirhugað er að taka upp í samninginn.

Umræðan undanfarið um EES-samninginn, og þá ekki síst í tengslum við þriðja orkupakkann, fólst að miklu leyti í gagnrýni á hagsmunagæslu Íslands, að hún væri ekki nógu góð á fyrstu stigum mála þar sem bestu tækifærin væru til að hafa áhrif á málin. Partur af þeirri umræðu var að við tækjum við öllu því sem kæmi frá Evrópusambandinu gagnrýnislaust og værum of sein að taka við okkur til að óska eftir undanþágum eða sérstökum aðlögunum að íslenskum aðstæðum. Margir þingmenn hafa einmitt komið inn á þessa þætti í ræðum sínum hér í dag.

Í því samhengi er bent á í skýrslunni að í endurskoðuðum reglum Alþingis, um þinglega meðferð EES-mála, sé lögð áhersla á virka þátttöku Alþingis í undirbúningi og mótun ESB-gerða og að leitast skuli við að tryggja hagsmuni Íslands eins framarlega í lagasetningarferli ESB og unnt er. Einnig er talað um aukið samráð ráðherra við utanríkismálanefnd um þau mál sem ríkisstjórnin meti sem forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum. Ég held að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hafi farið ágætlega yfir þessa þætti í ræðu sinni hér áðan.

Unnið hefur verið metnaðarfullt starf í að rýna framkvæmd EES-samningsins og komið fram tillögur um hvernig bæta megi framkvæmd samningsins hér á landi. Í skýrslu ráðherra er gerð grein fyrir fjölmörgum tillögum í skýrslum frá árinu 2015 og 2017 og rakin framkvæmd þeirra tillagna sem komnar eru til framkvæmda. Síðan er það skýrsla starfshópsins, um EES-samstarfið, frá því í september sl. sem hér var farið yfir. Það bætir verulega í, lagðar eru fram skýrar og ákveðnar tillögur sem nú eru í skoðun.

Mig langar að beina athyglinni aðeins að íslenskum sveitarfélögum og EES-samningnum. Samningurinn hefur víðtæk áhrif á starfsemi íslenskra sveitarfélaga og leggja EES-reglur skyldur á herðar sveitarfélaganna á sviði umhverfismála vegna stöðu sveitarfélaganna sem vinnuveitenda, veitenda opinberrar þjónustu og vegna innkaupa og fyrirtækjareksturs. Samband íslenskra sveitarfélaga er með einn starfsmann á skrifstofu sambandsins í Brussel og heyrir hann undir þróunar- og alþjóðasvið sambandsins. Skrifstofan hefur það mikla og mikilvæga hlutverk að annast virka og almenna hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin gagnvart ESB og íslenskum stjórnvöldum. Það kemur fram í skýrslu starfshópsins að stór hluti reglna ESB varðar sveitarfélög og hefur áhrif á ríflega helming viðfangsefna sveitarfélaga en allt að 70% löggjafar ESB eru á sviðum sem varða sveitarfélögin. Viðfangsefnið er því mjög umfangsmikið og hefur Samband íslenskra sveitarfélaga gott samstarf við evrópsk hagsmunasamtök sveitarfélaga, CEMR, í þessum málum. Í ljósi þess hve mikil áhrif eru á sveitarfélögin í gegnum EES-samninginn tel ég að tækifæri sé til þess að bæta hagsmunagæslu enn frekar á því sviði og ekki síður kynningu og fræðslu til sveitarstjórnarmanna um málið. En tilfinning mín er sú, eftir að hafa setið í tíu ár í sveitarstjórn, að sveitarstjórnarmenn séu almennt ekki meðvitaðir um þessi miklu áhrif fyrr en tilskipanirnar koma til framkvæmda á Íslandi og þá oft með tilheyrandi kostnaði sem leggst á sveitarfélögin og þá er þeim tilskipunum sem þaðan koma bölvað. En við vitum oft ekki af þessu fyrir fram eða fylgjumst ekki nógu vel með.

Þá velti ég því líka fyrir mér hvort við göngum ekki stundum of langt. Sem dæmi þarf samkvæmt nýjum lögum um opinber innkaup að bjóða skólaakstur í sveitarfélaginu Hornafirði út á Evrópska efnahagssvæðinu með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Og það er rétt að upplýsa það hér að engin tilboð bárust utan sveitarfélagsins þrátt fyrir auglýsingu á Evrópska efnahagssvæðinu. En það er margt ánægjulegt í þessu starfi og ég vil taka það fram að það var mjög ánægjulegt að lesa í skýrslunni að þátttaka Íslendinga í uppbyggingarsjóði ESB er almennt mjög góð, að 180 íslenskir aðilar hafi tekið þátt í 390 verkefnum í þeim 15 löndum sem sjóðurinn styrkti á síðasta tímabili, sem var tímabilið 2009–2014, og að þegar hafa mörg verkefni með íslenskri þátttöku verið samþykkt á yfirstandandi tímabili. Einnig hefur mikið verið talað í dag um þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB og erum við þar mjög umfangsmikil. Þátttaka íslenskra stofnana, fyrirtækja og einstaklinga hefur skilað miklum fjárhagslegum ávinningi til Íslendinga, auk þekkingarauka, nýsköpunar og mikilvægrar tengslamyndunar. Í mínum huga er það mjög ánægjulegt að EES-samstarfið stendur traustum fótum og að ávinningur Íslands af samstarfinu er mikill. Þetta er samstarf sem við skulum efla og halda áfram í.