150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:47]
Horfa

Einar Kárason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og allir aðrir sem hafa komið hér í dag þakka fyrir þessa ágætu skýrslu sem færir okkur heim sanninn um það sem marga hafði grunað, að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur haft mikil og jákvæð áhrif á þróun atvinnulífs, menntunar og menningar og á fleiri sviðum hér á landi. Það eru að vísu sannindi sem margir þóttust vita fyrir, að ekkert væri mikilvægara afskekktri smáþjóð en að einangrast ekki með tilheyrandi stöðnun og forpokun. Því meira lifandi og gagnvirk sem samskipti okkar eru við aðrar þjóðir þeim mun líklegri erum við til að skapa um okkur gróandi þjóðlíf með velmegun og blómstrandi menningu.

Ég hef heyrt menn tala um að fyrir u.þ.b. þúsund árum hefðum við tekið upp samband við einhvers konar miðaldaútgáfu af Evrópusambandinu, þ.e. með kristnitökunni í kringum árið 1000 þegar við tengdumst Rómarkirkjunni og hennar deildum víða um Evrópulönd. Sá atburður, hvað sem trúarbrögðum líður, hafði feikilega mikil og jákvæð áhrif á þjóðlíf á Íslandi eins og allir sem þekkja söguna vita. Með Rómarkirkjunni kynntumst við galdraverkum eins og prentuðu máli, lestri og skrift. Við kynntumst menningu annarra þjóða, heimspeki og sögu og í gegnum það urðu til mikil og jákvæð samskipti um alla Evrópu. Upp úr þessu varð stórkostlegur blómatími hér á landi sem náði að sjálfsögðu hámarki með gullöld íslenskra bókmennta á 13. öld þegar hér voru skrifaðar allar þær bækur sem enn eru lesnar og menn undrast víða um heim. Það er dálítið merkilegt, þegar maður les sögu þessa tíma, hversu mikil efnahagsleg velmegun virðist hafa tengst þessu. Íslendingar streymdu til útlanda, fóru niður til Rómar í stríðum straumum, hvort sem það var til að fá aflát eða einhvers konar leyfi eða bara til að hitta þá heilagleika sem þar voru. Í það minnsta héldu menn sig eins og höfðingjar á þessum ferðum sem stóðu oft árum saman.

Í einangrun afskekktra þjóða, að ég tali nú ekki um fámennra, er mikil ógnun falin. Mér var boðið á þing af menningarlegra taginu í Kákasuslýðveldinu Kirgisistan fyrir fimm eða sex árum. Þetta var ekki mjög mörgum árum eftir að þeir losnuðu upp úr frystikistu Sovétríkjanna sem var þeim að sjálfsögðu mikill léttir eins og öðrum þjóðum sem þar hafði verið þröngvað inn. Það sem mér fannst merkilegt var að þeir héldu þetta þing til þess að reyna að ná menningarlegum tengslum við umheiminn á nýjan leik. Hver á fætur öðrum komu ráðamenn, forsætisráðherrar, borgarstjórar o.s.frv., og sögðu við okkur að þrátt fyrir allt það sem fylgt hefði því að tilheyra Sovétríkjunum hefðu þeir þó verið í tengslum við einhverja meðan á því stóð. Þeir sögðu: Ef eitthvað var gert merkilegt, skrifað eða sagt, ef einhver atburður varð í þessu landi okkar, sem er á milli Úsbekistan, Kasakstan og Kína, var það á þeim tíma komið í fréttir og það var lesið og fylgst með því í heimsborgum eins og Moskvu og Leníngrad og jafnvel í Varsjá og Búkarest. En nú vill enginn vita af okkur, við höfum ekki nokkur tengsl við nokkurn skapaðan hlut. Við þurfum að búa okkur til einhvers konar tengslanet á ný. Hér er allt að koðna niður, sögðu þeir í Kirgisistan, og bættu því við að þeir söknuðu jafnframt þess tíma þegar þeir tilheyrðu Tyrkjaveldi nokkrum öldum fyrr því að þá hefðu þeir líka haft þessi lifandi tengsl við einhverja aðra í heiminum sem hefðu áhuga á þeim og tengdust þeim.

Að sjálfsögðu brutu þau veldi sem við erum hér að tala um, hvort sem það var Tyrkjaveldi eða Sovétríkin, undir sig lönd með hernaði og yfirgangssemi. Evrópusambandið er hins vegar frjáls samtök fullvalda þjóða. Þau lönd sem því hafa tengst hafa gert það vegna þess að það hefur verið vilji þjóðarinnar hverju sinni. Við erum því að tala um allt annars konar batterí. Þegar ég hugsa um þetta mál koma upp í hugann frasar sem fóru mikið í taugarnar á mér þegar ég var um tvítugt, þá erum við að tala um vestrænar lýðræðisþjóðir. Ég hef ekki alltaf verið hrifinn af miklu samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða. Ég gekk um hér á árum áður undir fánum og skiltum og hrópaði: Ísland úr NATO og herinn burt. Mér var svarað af mönnum sem voru í samtökum eins og Varðbergi sem eru samtök um vestræna samvinnu sem sögðu: Þetta eru vestrænar lýðræðisþjóðir, þetta eru þær frændþjóðir sem tilheyra okkur og við tengjumst mest og að sjálfsögðu eigum við að vera í samstarfi við þær.

Ég er fyrir löngu búinn að sjá að það er alveg rétt sem þessir menn sögðu. Við eigum að vera í sem nánustum tengslum og samstarfi við þær lýðræðisþjóðir í okkar heimshluta sem standa okkur næst og eru okkur skyldastar. Mér finnst það því dálítið merkilegt að nú þegar ég er kominn á þá skoðun, og læt hvarfla að mér að ganga í þetta félag, Varðberg, samtök um vestræna samvinnu, þá eru menn þar mjög þversum þegar kemur að því samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða sem kannski hefur lukkast best á síðustu áratugum, þ.e. Evrópusambandinu. Mér finnst það dálítið merkilegt vegna þess að NATO og Evrópusambandið hafa höfuðstöðvar í sömu borginni, Brussel, að þegar menn sem aðhyllast samstarf vestrænna lýðræðisþjóða koma í höfuðstöðvar NATO hitta þeir fyrir vini og þá sem okkur eru hlynntir og bræðraþjóðir, mæta mikilli elskusemi. Ef þeir fara síðan yfir götuna í höfuðstöðvar Evrópusambandsins og hitta fulltrúa nákvæmlega sömu þjóða þar, það geta verið Danir, Hollendingar og Þjóðverjar eða Bretar, þá eru það orðin nýlenduveldi sem ásælast frelsi okkar og auðlindir. Svona fer nú fyrir manni að maður verður á endanum kaþólskari en páfinn og er ekki vært í félögum um vestræna samvinnu vegna þess að maður er allt of hlynntur henni.

Við getum dregið lærdóm af þessari skýrslu um kosti þess að vera í Evrópska efnahagssvæðinu. Við getum líka velt því fyrir okkur hvort við getum lesið út úr þessari stöðu einhverja galla. Ég held að þetta eigi að vera okkur áminning. Menn hafa sagt að í Evrópska efnahagssvæðinu felist einhvers konar aukaaðild að Evrópusambandinu. Því hefur ekki verið neitað. Menn hafa jafnvel sagt að þetta sé eins og að vera 66% í Evrópusambandinu eða eitthvað slíkt. Við hljótum að spyrja okkur hvort hugsanlega sé skynsamlegt á einhverju augnabliki að stíga alla leið. Við vitum að með því að vera í EES höfum við engin áhrif, þ.e. við komum ekki að ákvörðunum um mál sem skipta okkur miklu, það eru aðrar þjóðir sem ákveða það. Í þessu Brexit-klúðri sem uppi er hafa menn stundum verið að tala um að Bretar geti hugsanlega tekið upp þessa norsku leið, EES-systemið. En hvernig? Ég held það yrði upplit á þegnum gamla heimsveldisins ef þeir fengju að vita að þeir yrðu að taka hrátt og gleypa allt sem Þjóðverjar, Frakkar og Hollendingar hafa ákveðið handa þeim. Þetta er það sem við þurfum að hugsa.