Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún var fróðleg og skemmtileg, einkum framan af þegar hann ræddi um forna hluti og tengsl Íslands og Evrópu á miðöldum sem hann hefur mikla þekkingu á. Ég vildi hins vegar bregðast örlítið við ákveðnum atriðum í síðari hluta ræðu hans, ekki síst til að útskýra afstöðu manns sem styður vestræna samvinnu og styður tengsl við Evrópuríki en styður ekki aðild að Evrópusambandinu, því að tiltölulega auðvelt er að gera það. Það er ekki þannig að þetta sé alveg svart og hvítt, annaðhvort sértu með alþjóðasamvinnu, í hvaða formi sem hún birtist, eða á móti henni. Þetta er ekki alveg þannig. Grundvöllurinn að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu byggir einmitt á því að menn tóku þá ákvörðun á sínum tíma, fyrir á 25 árum, að eðlilegt væri og skynsamlegt að tengjast Evrópusambandinu með tilteknum hætti og á þeim grundvelli er EES-samningurinn reistur.

Á skýrslunni sem hér er til umræðu er hins vegar hægt að sjá að töluverður munur er á aðild að Evrópusambandinu og EES-samningnum. Hv. þingmaður nefndi að enginn hefði andmælt því að þetta væri aukaaðild að Evrópusambandinu, en ég vil andmæla því. Ég held að það sé ekki aukaaðild að Evrópusambandinu. EES-samningurinn er tiltekinn samningur sem felur í sér ákveðið fyrirkomulag á tengslum þessara þriggja EFTA-landa við Evrópusambandið. Það er ekki um að ræða aukaaðild. Ég held að það sé ekki rétt nálgun. En ef við horfum á efni skýrslunnar sjáum við að það er töluvert mikill munur á bæði formlegum og efnislegum tengslum við Evrópusambandið eftir því hvort (Forseti hringir.) um aðild er að ræða eða þeim tengslum sem felast í EES-samningnum.