150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:00]
Horfa

Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég ætla ekki að fara út í neinar hártoganir um það hvort við köllum þetta aukaaðild eða ekki. Að forminu til er þetta að sjálfsögðu ekki aukaaðild, en menn hafa talað um að það megi upplifa þetta þannig. Það sem ég held að hafi breyst frá því fyrir 25 árum þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu er að þá var það svo almenn skoðun að hún var sorteruð undir heilagan sannleik á Íslandi, að við gætum ekki verið með í Evrópusambandinu vegna þess að þá myndum við missa yfirráð yfir fiskimiðum okkar, okkar helstu auðlind, til einhvers Brussel-valds. Síðan hefur það verið rannsakað og skoðað, fyrir utan það að mikið vatn hefur runnið til sjávar, og þá þykjast allir sem hafa mest rannsakað það mál komist að þeirri niðurstöðu að það muni engu breyta um yfirráð okkar yfir þeirri auðlind. Ég er ekki að segja eða leggja það fram hér að við eigum að ganga í Evrópusambandið umfram það að hafa sótt um og vonandi er sú umsókn enn þá gild og við getum þá tekið tillit til hennar.

Það eru ýmsir kostir. Við gætum t.d. tekið upp miklu stabílli mynt en þá hrungjörnu og hverflyndu íslensku krónu sem við höfum búið við. Við gætum notið mjög geðugrar landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, eins og sérstaklega hefur sýnt sig þar sem þeir skilgreina sem heimskautasvæði. Jafnframt er byggðastefna Evrópusambandsins þannig að ég held að það myndi gagnast mjög byggðum landsins. Ég er bara að segja að við þurfum að skoða kostina og gallana.