150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:05]
Horfa

Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka síðara andsvarið. Það er alveg rétt að sú stemning sem var fyrir því að menn skoðuðu aðild að Evrópusambandinu eftir hrun hefur að sjálfsögðu hjaðnað töluvert. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að þar sem við sóttum um aðild, þar sem við lögðum í það mikla vinnu að semja okkur í áttina að einhvers konar samningi sem væri hægt að bera undir þjóðina, hafi það verið feiknalega misráðið og mikill klaufagangur hjá ríkisstjórninni sem tók við af vinstri stjórninni, að senda eitthvert skringilegt bréf til Brussel, bréf sem vel að merkja ekki einu sinni ritstjóri Morgunblaðsins tekur mark á. Ég held að það væri miklu verklegra á allan hátt að klára þetta mál og leggja síðan samning fyrir þjóðina. Séu menn svona sannfærðir um að engin stemning sé fyrir þessu í þjóðfélaginu lengur, þá þurfa menn engar áhyggjur að hafa, þeir geti reiknað með að þetta verði fellt. Það sem ég held hins vegar að menn óttist sé að fólki muni lítast vel á þennan samning þegar það sæi framan í hann. En við, sem tilheyrum þeim flokkum sem vilja að þetta mál sem við hófum verði klárað, förum náttúrlega ekkert að guggna og draga okkur í hlé af því að við finnum að stemningin í samfélaginu hafi eitthvað minnkað fyrir þessu. Það er þá okkar verkefni að reyna að píska þá stemningu upp á ný.